Bikarúrslitaleikur

Jæja þá er bara komið að því eftir 14 ára bið að maður er að fara í eitt stk bikarúrslitaleik. Árið 1994 fór Grindavík í fyrsta og eina skiptið í sögunni í úrslit og þá einmitt á móti KR. Ólinn var ekki nema 18 ára pjakkur þá en búinn að spila einhverja leiki í deildinni og því vongóður um það að vera í það minnsta í hóp en allt kom fyrir ekki því meistari Luka Kostic valdi mig sem 17.mann sem var óvinsælasta staða í knattspyrnuheiminum því þá var maður fyrsti leikmaður fyrir utan hóp. KR vann Grindavík 2-0

Gústi að fagna í sínum síðasta deildarleik

7912736-lg_1.jpgÍ dag eru breyttir tímar því 17.maðurinn er allavega í hóp þar sem hópurinn skartar 18 mönnum. Svo er kannski kaldhæðni örlaganna að ég skuli spila nr 17 í dag. Það er líka margt annað merkilegt við þennan leik því t.d er aldursforseti okkar liðs hann Ágúst "púst" Gylfason að spila sinn 10.bikarúrslitaleik og um leið kveðjuleik því að karlinn ætlar að hætta eftir þennan leik. Gaman fyrir hann að mæta fyrrum félögum sínum úr KR í síðasta leik sínum. 

Einu nýliðar bikarúrslitaleiks í byrjunarliði okkar í dag eru við nafnarnir og klefanágrannar ég og Óli Palli. Öll lið sem hann hefur spilað með allavega hér á Íslandi hafa orðið bikarmeistarar nema Fjölnir og er ætlunin að breyta því í dag með því að vinna leikinn.

Það er ekki laust við að gamall og góður fiðringur sé núna farinn að láta finna fyrir sér. Þrátt fyrir kulda er stemmningin hér í Grafarvogi engu lík og maður veit fyrir víst að Káramenn ætli að láta til sín taka í dag ástamt öðrum gestum og þannig er sigurformúlan búin til, með samstilltu átaki leikmanna og þeirra sem koma að liðinu ásamt fólkinu sem mætir og styður gula glaða til sigurs.

 

Óli Stefán......sem er farinn að setja í tösku og koma sér útá völl


Topp 5 í DVD safninu

Ég hef síðustu vikur verið frekar duglegur að fara yfir gamlar dvd myndir sem maður hefur safnað yfir tíðina. Ég ætla aðeins að fara yfir topp 5 listann á þeim myndum í stuttu máli.

5.sæti     Enemy of the state með Will Smith og snillingnum Gene Hagman. Ég var búinn að gleyma því að ég ætti þessa mynd og var því ekki búinn að sjá hana í frekar langan tíma. Þetta er alveg fín ræma sem maður getur horft á oftar en einu sinni.

 

4.sæti   Jerry MaGuire með Tom Cruise og Cuba Cooding Jr. Snilldar mynd þar sem þeir félagar fara á kostum og þá sérstaklega Cuba Cooding Jr. Mig minnir meira að segja að kappinn hafi verið tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í myndinni

 

3.sæti Bying the cow er eiginlega svona ein af þessu óvæntu. Ég keypti hana á ferðalagi í Belgrad árið 2004 en þá vissi ég gjörsamlega ekkert um hana. Ég fékk hana í tilboði í 5 dvd myndapakka og svo sló hún svona þræl skemmtilega í gegn. Ryan Reynolds fer hamförum í þessari snilldargrínmynd

 

 

2.sæti Executive decision er ein af mínum uppáhaldsmyndum. Hún er líka þessi óvænta sem maður átti nú ekki mikið vona á. Ég held að af öllum mínum dvd myndum hafi ég horft á þessa mest. Ég man hvað mér fannst það mikil snilld að Steven Segal sem maður hélt að væri nú aðalhetjan í þessari mynd dó eftir 20 mín, það gerði myndina einhvernvegin miklu betri. 

 

1.sæti Black Hawk Down er stríðsmynd eftir Ridley Scott sem byggð er á sönnum atburðum. Ég spilaði og kláraði tölvuleikinn áður en ég sá myndina en hún er ein af betri stríðsmyndum sem maður hefur séð. Mögnuð ræma sem er klárlega besta dvd mynd sem ég á. 

 

 

Óli Stefán........ sem er miklu meira fyrir það að eiga myndir á dvd í stað þess að safna þeim á einhvern flakkarardjöful

 

 

 

 

 


Predador

new_adidas_predator_swerve.jpgÉg veit ekki hvort að það sé það að ég og Tói Leifs séum náskyldir eða hvað en ég hef verið að hitta á brandara sem að Tói hefði verið stoltur að koma með. Þannig er mál með vexti að ég þurfti að fara í leiðangur til að finna mér takkaskó eftir að 6 ára gamlir Adidas skór mínir gáfu upp öndina í síðustu viku. Þar sem tíðin er blaut þessa dagana getur maður ekki spilað á föstum tökkum lengur þannig að ég þurfti að ná mér í svokallaða skrúfutakkaskó sem eru notaðir á blautu grasi. Það endaði með að ég fann þessa fínu Adidas Predador skó sem eru ekki þeir ódýrustu á markaðnum en djöflinum betri eru þeir líka. Andri Valur var eitthvað að velta fyrir sér þessum nýju og glæsilegu skóm þegar að hann sagði að hann skildi ekkert í af hverju þeir væru svona helvíti dýrir. Ég þóttist nú heldur betur vita svarið og sagði honum að það lægi allt saman í nafninu á skónum en glöggir menn vita nú sjálfsagt hvað Adidas Predaor þýðist á íslensku........... Adidas rándýr.

Nú eru sjálfsagt einhverjir sem að trúa því endanlega að við Fjölnismenn séum ekki með vott af húmor því þessi djöfull sló í gegn í klefanum. Fyrir þá sem fíluðu þennan þá er ég með einn enn

Hvað gerir maður við gamalt hakk ???    SVAR... Býr til eldri borgara

 

 

 

Óli Stefán....... sem tekur lítið fyrir að skemmta í brúðkaupum og þessháttar skemmtunum. 


Gömul og góð færsla.

Ég var að lesa yfir gamlar færslur af gömlu góðu grindavik.blog.is síðunni. Við Eysteinn Húni sáum að mestu um að skrifa á hana fyrir meistaraflokk Grindavíkur á sínum tíma. Alveg fannst mér makalaus færslan hans Eysteins daginn eftir að yngri unnu eldri í fyrsta skiptið á því herrans ári 2006. Þessi merki atburður átti sér stað 5. desember í Reykjaneshöllinni og Eysteinn lýsir reynslunni hér

Einnig fann ég þessa líka fínu mynd af mér frá árinu 1998 þegar að ég lá fárveikur á sjúkrahúsi í Reykjavík. Þessi mynd hefur kitlað hláturtaugar margra og læt ég hana því flakka hér

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Óli Stefán...... sem hefur mjög gaman af því að lesa gamlar færslur af Grindavíkur blogginu


Endaspretturinn hafinn

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan síðast. Úr boltanum er hefur lítið breyst því ekki höfum við halað inn endalaust af stigum í seinni umferð og erum því ekki enn komnir með markmið okkar í hús sem var vitaskuld að halda Fjölni í efstu deild. Nú er endaspretturinn hafinn og við spiluðum við Íslandsmeistaraefni úr Keflavík á laugardaginn í úrhellis rigningu og ógeði. Ég held að þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki verið í stuði að þá hafa leikmenn boðið uppá fínan leik. Þó að við höfum tapað þessum leik 1-2 held ég að menn beri höfuðið nokkuð hátt því að það er eitt að tapa leikjum eins við gerðum á móti Fram þar sem menn voru vart með lífsmarki og annað að tapa leik eins og á laugardaginn þar sem hver og einn gerir sitt besta. Ég er farinn að viðurkenna það að strákarnir úr Keflavíkurhverfi taki titilinn stóra því þeir hafa allt sem þarf til þess og þar með talin þessi meistaraheppni sem kláraði þennan leik á laugardag.

Á fimmtudag spilum við svo við Fylki í Árbæ. Mig hlakkar mikið til að glíma við þá í þriðja skipti í sumar en eitthvað segir mér að þeir appelsínugulklæddu munu selja sig dýrt eftir úrslitin í fyrri leikjum í sumar þar sem við höfðum betur. Fylkir er með hörkulið og sýndu það svo um munar í rokinu í Grindavík í síðustu umferð þar sem að mínir fyrrum félagar sáu aldrei til sólar.

Næstu þrjár vikur eru svakalegar fyrir okkur Fjölnismenn þar sem það eru þrír úrslitaleikir við lið sem eru fyrir neðan okkur og við þurfum svo sannarlega að ná í stig og það sem allra fyrst. Svo er það náttúrlega stærsti leikur ársins sjálfur bikarúrslitaleikurinn sem er viku eftir síðasta leik eða laugardaginn 4.okt. Fyrst þurfum við að klára deildina áður en að þeim leik kemur.

 

Óli Stefán.......sem óskar Eyjapeyjum til hamingju með það að vera komnir í efstu deild þar sem þeir eiga auðvitað heima. 

 


Úrslitaleikur bikarkeppninnar takk fyrir

Já loksins eftir 14 ára bið náði maður í úrslitaleikinn í þessari frábæru bikarkeppni. Ég var í Grindavík 1994 þegar að Luka Kostic var þjálfari og fékk það óvinsæla hlutskipti að vera 17.maður í þeim leik eða fyrsti maður utan hóps þannig að ekki spilaði ég þann leik. Leikurinn við Fylki var þriðji undanúrslitaleikurinn minn og því komið tími á sigur sem varð svo raunin. Fjölnir fór í þennan leik í fyrra og ætla sér nú skrefi lengra eða að ná titlinum. Einnig er gaman að geta þess að Ágúst Gylfason sonur Gylfa Púst er að fara að spila sinn 10.úrslitaleik í bikarkeppni á ferlinum. Magnaður árangur það.

Í gær unnum við Fjölnismenn svo fyrsta titilinn af þremur sem að liðið átti möguleika á í sumar. Við tókum okkur til og unnum golfmót úrvalsdeildarinnar sem fór fram á Hellu. Tvö pör spiluðu saman úr hverju liði og spilað texas skramble (ber enga ábyrgð á stafsetningu). Okkar lið var þannig að ég og Gústi spiluðum saman og svo Geiri og Haukur. Það fór þannig að ég og Gústi spiluðum á pari vallarins á meðan Geiri og Haukur spiluðu þrjá undir sem er náttúrlega fáránlega gott skor.  Skor okkar var síðan lagt saman og unnum við með fjórum höggum. Við Gústi vorum síðan með besta skor með forgjöf. Grindavík lenti í öðru sæti og FH í því þriðja.

 

Óli Stefán.....sem hló endalaust af Scotty sem fór hamförum í golfmótinu í gær 

 


Undirbúningur fyrir undanúrslitaleik

Á morgun fer fram einn af þessum stóru leikjum sem eiga eftir að standa uppúr í minningunni þegar að maður hættir þessu sparki. Við erum að fara að spila við stórgott lið Fylkis í undanúrslitum bikarsins. Ég hef spilað þrjá undanúrslitaleiki og unnið einn og "píp" tveimur. Síðast spilaði ég að mig minnir á móti Leiftri Ólafsfirði 1997 undanúrslitaleik sem var í Grindavík og töpuðum við 0-2 sælla minninga.

Þessi mynd af Geira kemur þessari færslu ekkert við en ég fer bara alltaf í svo gott skap þegar að ég sé hana. (Þið getið klikkað á hana til að stækka hana)

picture_166[2]Núna er Fjölnir að fara annað árið í röð í undanúrslitaleik og aftur á móti Fylki og aftur spilar Fjölnir í varabúningunum (sem mér finnst flottari) og þá er bara að sjá hvort að Fjölnir vinni ekki bara aftur líka. Strákarnir tala enn um þá svakalegu stemmningu sem var eftir þennan leik í fyrra og menn eru tilbúnir að gera hvað sem er til að vinna. Meistari Markan er búinn að heita á liðið og það ekkert lítið áheit.

 Hvernig búa menn sig undir svona leiki? Gera menn það á svipaðan hátt og venjulega eða breyta menn útaf vananum og prufa eitthvað nýtt og ferskt?. Ég persónulega fer í sömu rútínu og alltaf sem felst í því að spá sem allra minnst um leikinn og helst ekkert að ræða hann fyrr en maður mætir í klefann. Auðvitað verður maður að hlaða líkamann orku og mataræðið er því eftir því. Svefn og hvíld er í rútínunni og svo að vakna snemma á leikdag. Aðal málið fyrir mig er s.s að spá sem allra minnst í leiknum og getur það oft verið nokkuð flókið þegar að maður vaknar snemma á sunnudegi og leikurinn síðan seint um kvöldið. Auðvitað hafa allir sinn hátt á sem virkar misvel á menn.

Heimir Snær í miðjunni 

dscf0037_edited[1]Nýjasti meðlimur mfl. Fjölnis heitir því skemmtilega nafni Heimir Guðmundsson sem er enn einn uppaldni FHingurinn í okkar herbúðum. Ég viðurkenni fúslega að ég átti ekki von á miklu frá kauða en sá hefur heldur betur slegið í gegn, bæði innan vallar sem utan. Heimir er svona lúmska týpan sem lætur lítið fyrir sér fara og hendir síðan inn gullmolum í umræðuna, svona svipað og Pétur Markan.........eða ekki. Þó að mér líki afskaplega vel við strákinn varð ég að gefa honum gula spjaldið í klefanum áðan þegar að hann fór að setja út á Bubba þegar hann var að syngja Blindsker og Ólinn í hæstu hæðum að hlusta á kónginn. Ég kenni svolítið Tóa samt um að vera ekki búinn að útskýra reglurnar fyrir Heimi þannig að hann slapp með gula spjaldið í þetta sinn.

 

Óli Stefán........sem líður ekkert alltof vel yfir því að hafa rifist við bestasta vin sinn hann D.Rú í reitabolta í morgun. Fyrirgefðu elsku Davíð minn 


Basl

Já það eru sko ekki alltaf jólin í fótboltanum. Við höldum áfram að tapa og höfum ekki unnið leik í seinni umferðinni. Í gær komst liðið eiginlega ekki úr fyrsta gír nema þá kannski í svona 15 mín í seinni hálfleik þar sem liðið náði að komast í þriðja gír kannski. Framarar voru hins vegar öflugir og gerðu eiginlega það sem þurfti að gera. Félagi minn hann Paul Mcshane er algjörlega að blómstra þarna og er að mínu mati búinn að vera leikmaður deildarinnar so far.

Ekki má staldra lengur við þennan leik því næst verður stærsti leikur okkar í sumar þegar að við spilum undanúrslitaleikinn í bikarnum og ef ég þekki strákana í liðinu eitthvað þá veit ég að þeir gíra sig upp í þá stemmningu sem verður á sunnudaginn og klára dæmið. Fylkir er svo til í sömu stöðu og við þannig að þetta verður hörku leikur. 

Maður er orðinn nokkuð gamall í boltanum og sést það best á því að ég á núna að baki 199 úrvaldsdeildarleiki að baki þannig að ég bíð eftir big 200. Ég hef verið að segja strákunum það að ég finn svona Arnórs og Eiðs Guðjónsens lykt af þessu því ég hef ekki misst af mörgum leikjum á ferlinum en núna hef ég misst af síðustu tveimur leikjum og bíð því ennþá eftir að komast í 200 leikja klúbbinn.

 

Óli Stefán...... sem botnar ekkert í KSI í að hafa umferð í Landsbankadeildinni á sama dag og undanúrslitaleikir í bikarnum eru


Ólympíuleikar

Síðustu vikur hef ég fengið staðfest hversu mikið íþróttanörd ég er. Í sjónvarpinu eru Ólympíuleikarnir alla daga og alla nætur þar sem keppt er í íþróttagreinum sem að maður hreinlega vissi ekki að væru til. Það skiptir hins vegar engu máli fyrir mig því maður er límdur við skjáinn. Ég á orðið uppáhaldskeppanda í grískri glímu, dýfingum, siglingum, skylmingum og að sjálfsögðu strandblaki kvenna.

BeachVolleyball[1]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Það sem stendur náttúrlega uppúr hjá landanum er auðvitað árangur handboltalandliðsins. Að ná alla leið í undanúrslit er auðvitað stórglæsilegur árangur en mikill vill meira. Nú vil ég að menn sætti sig ekkert við það að fara að spila um bronsið og fari á fullum krafti í Spánverjana því þeir eru ekkert ósigrandi vígi. Eini handboltaleikur sem ég hef mætt á á ævinni er einmitt sigurleikur okkar á móti þeim í sumar. Nú vil ég úrslitaleik og ekkert annað.

Talað er um að sigurvegarar Ólympíuleikanna í ár séu þeir Michael Phelps sundmaður frá USA og Usian Bolt spretthlaupari frá Jamaika sem er sjálfsagt alveg rétt. Mér finnst hins vegar skipta máli hvernig menn vinna og þar er stór munur á þeim félögum. Phelps kann að fagna rétt og endurspeglar þannig þann íþróttamann sem hann er á meðan Bolt er svo leiðinlegur á að horfa þegar hann fagnar að ég fæ óbragð í munninn. 

 

Óli Stefán......sem hefði sjálfsagt orðið afbragðs dýfingamaður hefði hann lagt það fyrir sig 


Boltinn á fullu

Já síðustu helgi byrjaði enski boltinn að rúlla aftur mér til mikillar gleði. Mínir menn störtuðu á móti WBA á Emerates vellinum. Vegna anna í boltanum hjá mér náði ég bara síðustu 20 mínútunum í þeim leik. Maður er því ekki alveg dómbær á leikinn sjálfan en sigurinn góður engu að síður. Mér líst alveg ótrúlega vel á nýju leikmennina og þá sér í lagi Nasri sem skorðaði þarna í sínum fyrsta leik. Ég er samt alveg raunsær á þetta tímabil því bæði Chelsea og Man Utd eru með fáránlega góð lið og svo eru Púllararnir alltaf líklegir þegar að tímabilin byrja. Þó að við höfum misst bæði Flamini og Hleb þá fáum við menn eins og Van Persie og Rosicky til baka úr meiðslum. Svo vorum við að bæta í hópinn Silvestre frá Man Utd sem ég set spurningamerki við en hver efar meistara Wenger í leikmannakaupum. Ég spái mínum mönnum 3 sæti en vona auðvitað það besta

Hér á Íslandi er allt í fullu fjöri ennþá þó að við höfum ekkert verið duglegastir að safna stigum síðustu leiki. Nú eru sex leikir eftir í Íslandsmótinu og aðalmálið hjá okkur er að safna eins mörgum stigum og hægt er úr þeim leikjum. Svo eftir rúma viku er undanúrslitaleikur okkar við Fylki á Laugardalsvellinum þannig að það er allt í gangi hjá okkur ennþá.

Óli Stefán......sem byrjar í skólanum á morgun 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband