Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Próflestur

Það er orðið heldur langur tími síðan maður var í próflestri. Nú er bara kominn sá tími hjá mér og veit maður eiginlega bara ekkert hvað maður á að gera við allan þennan tíma. Reyndar skulda ég tvær ritgerðir sem ég er að vinna í og á að skila 6.des þannig að það fer nú einhver tími í þær.

Ég er að nota svona verðlaunataktík á mig þannig að ef ég skila af mér einum og hálfum klukkutíma í lærdóm þá verðlauna ég mig með einhverjum hætti. Núna er ég t.d að verðlauna afrek dagsins með því að taka á leigu Pirates of the Caribbean "at world´s end" og pínu nammi með. 

Æfingin í kvöld var frekar erfið að því leitinu að veturkonungur lét til sín taka. Ekki var hann þó að henda í okkur frosti eða miklum kulda heldur þá lét hann Kára um að blása all hressilega á okkur. Við náðum þó að hita vel upp og færa okkur svo á sparkvellina sem eru þarna allt í kringum Egilshöllina og spiluðum eldri á móti yngri. Auðvitað tapaði ég ekki þó að ég hafi nú ekki unnið heldur. Leikurinn endaði nefnilega 9-9. Strák pjakkarnir sem ég er að æfa með höfðu það að orði að ég og Eyþór Atli værum með forskot því við eigum að vera vanari svona roki. 

Á morgun eigum við leik við Val kl 18.30 í Egilshöllinni

Óli Stefán....... sem er búinn að setja upp allt jólaskrautið (eða tók allavega þátt í því) 


Söngvaskáld

Einn af mínum uppáhalds þáttum í ríkissjónvarpinu er þátturinn söngvaskáld sem er á þriðjudagskvöldum. Þar koma hinir ýmsu tónlistarmenn og spila og syngja lög sem þeir hafa samið eða bara lög sem þeim sjálfum finnst góð. Þeir mega víst bara hafa einn aðstoðarmann sem í flestu tilfellum spila á sem flest hljóðfæri. Í síðustu viku var Björn Jörundur á sviðinu og klikkaði hann sko ekki frekar en fyrri daginn. Núna er það Færeyska drottningin hún Eivör Pálsdóttir. Það er engum blöðum um það að flétta að þessi stúlka hefur alveg hreint ótrúlega hæfileika, bæði söng og svo það sem mér finnst gera hana frábæra, brilliant hljóðfæraleikari.

Ég er alltaf á æfingum á þriðjudögum frekar lengi en hún byrjar kl 18.30 með fótboltaæfingu í 90min eftir það förum við inn í lyftingasalinn í Egilshöllinni og tökum alveg klukkutíma prógramm þar. Að lokum svona svo maður lifi daginn eftir af þá förum við í gufu og pott í alveg 30 min þannig að þetta er þarna orðin frekar löng æfing. Þegar ég svo kem heim er þátturinn byrjaður og yfirleitt hálfnaður þannig að ég klára hann alveg og svo stilli ég á RÚV plús og horfi á fyrsta hálftímann.

Í kvöld var æfingin frekar flott. Við hituðum vel upp og tókum síðan 3x15 11 á móti 11. Venjulega er ég mjög ánægður þegar við spilum á stóran völl en í kvöld var ég bara ekki alveg mótiveraður í svona æfingu enda held ég að það hafi alveg sést á frammistöðunni. Mitt lið tapaði 4-2 og ég varnarmaður. Ég hafði ekki tapað á æfingu í fjögur skipti í röð en þarna brotlenti ég heldur betur. Ég var á þessari æfingu að kljást við Davíð nokkurn Rúnarsson sem er ótrúlega seigur fótboltamaður. Hann ber sig yfirleitt þannig á velli eins og hann sé bara að niðurlotum kominn en svo lumar hann á þessum líka sprengikrafti. Hann er svona pókerspilari fótboltans, alltaf að blöffa. Mér fannst hann erfiðasti andstæðingurinn minn í sumar þ.e sem ég þurfti að dekka og kljást við. 

Mér skilst að það eigi að vera nokkurskonar liðspartí eftir leikinn við Val á föstudag. Fínt plan að klára Valsarana og fara svo í pottinn með nokkra kalda. Enda svo í partí og finna sér slagsmál. Fullkomið kvöld ekki satt?

Óli Stefán ... sem var einu sinni skotinn í Eivör


Boltinn

Ég verð að fagna því að mínir menn (Fjölnir) tryggðu að ég held síðustu samningslausu mennina þannig að nú eru allir áfram sem voru síðasta tímabili utan þeirra tveggja sem voru í láni. Ég get alveg sagt það að þarna eru allt mjög frambærilegir fótbolta menn á ferð á besta aldri. Davíð Þór Rúnarsson er að ég held 29 ára og er elstur þeirra sem samið var við, hinir leikmennirnir eru 25-26 ára. 

Mikið svakalega var ég annars ánægður með að mínir menn í norður London kláruðu leik sinn við Wigan um helgina. Ég var að horfa á leikinn ásamt Bjössa Andrésar sem hefur það líti að vera stuðningsmaður Man Utd þannig að við urðum alltaf að skipta á milli stöðva til að geta fylgst með báðum leikjunum. Ég var þarna farinn að sjá fram á það að Arsenal ætlaði að klikka á að nýta sér klúður rauðu djöflanna og ná bara í eitt stig. En sem betur fer kláruðu þeir leikinn þrátt fyrir það að í liðið vantaði einhverja sex fastamenn og þar með 3 bestu leikmenn liðsins hingað til þá Fabregas, Hleb og Flamini sem hefur komið manna mest á óvart í vetur.

Óli Stefán .....sem er að útbúa matseðil fyrir vikuna 


Skotleyfi

Já hann var fyrir margar sakir nokkuð furðulegur leikurinn við ÍA í morgun. Fyrir það fyrsta þá er tíminn ekki sá sem maður á að venjast í fótbolta en leikurinn hófst 09.40. Það svosem var alveg ágætt þegar menn voru vaknaðir. Í öðru lagi þá er það svo furðulegt með þessa höll þeirra eins flott og hún er þá er hitastigið eða kuldastigið öllu heldur brenglað. Ef að það er um frostmark úti þá eru örugglega 8 gráður í mínus þarna inni. Svo er það allra furðulegasta við þetta allt saman að kóngurinn sjálfur gaf sínum mönnum skotleyfi á einn af okkar leikmönnum. Ási þjálfari skipti hópnum í tvennt og fengu þeir sem byrjuðu fyrri hálfleik en svo var bara skipt um lið og nýtt lið inná í seinni hálfleik. Þegar að seinni hálfleikur var svona 10 mínútna gamall gerist það að einn af okkar mönnum lendir í klafsi við hliðarlínuna. Þetta endar þannig að hann og leikmaður fallast eiginlega í faðma og leikmaður ÍA lendir undir honum og upp við vegginn við varamannabekkina. Þá bara missir Guðjón þjálfari þeirra það. Hann öskrar á Ásmund hvort að hann ætli ekki að taka þennan leikmann útaf því að hann leggi sína menn í hættu og það í æfingaleik. Ási hlustar ekkert á hann en þá brást kóngurinn hinn versti við og öskrar á sína menn að þeir hafi nú skotleyfi á leikmann nr 4. Þeir höfðu semsagt leyfi til að fara í hann og sjálfsagt meiða hann. Þessi strákur er nú ekki nema 16 ára og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þetta er með því allra daprasta sem ég hef orðið vitni af á annars minni löngu æfi só far.

Óli Stefán..... sem er ánægður með að hafa komist í gegnum 45min á miðjunni í dag 

 

p.s við töpuðum leiknum 0-2 þrátt fyrir fína spilamennsku 


Fyrsti leikur með nýju félagi

Árla morguns næstkomandi laugardag eigum við Fjölnismenn (skrítið að skrifa þetta) leik við pjakkana ofan af skaga. Maður fær nú samt nánast að sofa út því leikurinn byrjar ekki fyrr en 9.40 í Skagahöllinni. Föstudag eftir viku spilum við síðan við Jóa Helga og félaga í Val. Mér finnst það einmitt fínt hjá Ása þjálfara að byrja á þessum liðum sem við eigum að vinna, bara svona uppá sjálfstraustið og framhaldið. Fínt að vera búnir að spila nokkra svona leiki áður en við mætum síðan alvöru liðum. Ég sagði einmitt við strákana í kvöld að þetta væru bara leikir fyrir guttana í liðinu en þá var það einn snillingurinn sem greip þetta á lofti og sagði að þá fengu allir nema ég og Gústi Gylfa (Ágúst Gylfason, við sem þekkjum hann köllum hann Gústa) að spila. Hugsanlega fengi Davíð Rúnarsson hvíld þar sem hann er lang þriðji elsti 28 ára gamall.

Óli Stefán......sem að er svona rétt byrjaður að gera sér grein fyrir því hvað..............Gústi er gamall 


Lyftingar

Einhvern veginn hef ég aldrei fundið mig í lyftingum og mun sjálfsagt aldrei gera. Lyftingar hefur alltaf verið hluti af undirbúningstímabili okkar knattspyrnumanna og er ég nú að hefja slíkt tímabil. Reyndar hafa þessar lyftingar sem að við knattspyrnumenn erum í alveg sloppið og er alveg góð æfing sem slík því að menn þurfa jú að styrkja sig margir hverjir (Orri ég er ekki að skjóta á þig). Í gær eftir ágæta fótbolta æfingu hoppuðum við í salinn í Egilshöllinni og tókum hring í járnunum sem gerði það að verkum að ég get varla hreyft mig í dag. Við Eyþór kíktum síðan í þennan líka fína pott sem er algjörlega nauðsynlegt eftir svona átök. Við erum ekkert að fara út í það hvernig spilið endaði á æfingunni, er það nokkuð Eyjó???

Óli Stefán ....... sem að horfði fullur aðdáunar á söngvaskáldið Björn Jörund í gær


Stoltur af karlinum

Djöfull er maður ánægður með hann Birgi Leif Hafþórsson. Drengurinn var að koma sér áfram í Evrópumótaröðinni annað árið í röð sem verður að teljast alveg hreint undraverður árangur. Er þetta bara ekki svipaður árangur eins og að knattspyrnuliðið kæmist í lokastórkeppni? Allavega þá er maður ánægður fyrir hans hönd og vona ég að hann standi sig bara áfram.

Óli Stefán..... sem að væntanlega hellir sér í golfið næsta sumar


mbl.is Birgir: „Ég hef aldrei verið eins stoltur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afbrennslustjóri ríkisins

Ég fékk á sínum tíma þennan titil frá Bjarna Andréssyni fyrrum formanni Grindvíkur og pabba Ólafs Arnars Brannara. Þannig var það að ég held að það hafi verið árið 2000 að við vorum að keppa við ÍA í Grindavík og vorum að vinna eitt núll og komið fram yfir venjulegan leiktíma. ÍA fær þá hornspyrnu sem við hreinsum frá og allt í einu vorum við komnir tveir á móti markmanni ég og Sverrir Sverris körfubolta séní út Keflavík. Hann er með boltann og sólar markmanninn og leggur hann á mig þar sem ég stóð einn fyrir opnu marki innan við meter frá línunni. Ég trekkti bara upp sleggjuna og hamraði blöðruna langt yfir og í svekkelsinu hleyp ég að stönginni og sparkaði í hana (man að ég meiddi mig mikið þó að ég léti ekkert bera á því, nógu vandræðalegt var þetta orðið samt) Í þessu flautar dómarinn af og þá hljóp ég fagnandi í fangið á Sverri dauðfeginn því að þetta klúður kostaði okkur ekki sigurinn.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp hér er að á flakki mínu á netinu fann ég þessa snilld og ekki laust við að ég sé nú bara í góðra manna hóp þeirra sem hafa klikkað á sannkölluðum dauðafærum.

Óli Stefán..... sem að spilaði vistri bakvörð í umræddum leik 


Menningaheimarnir mætast og framfarir í eldhúsi

Mikið svakalega fann maður til með skotunum á laugardaginn. Ég tók mig til og fór að horfa á þá spila við Ítali á Gaumbar með skotunum Scotty og Baldri Bett ásamt tveimur bræðrum hans. Þetta varð hin mesta skemmtun því að það verður seint sagt að Skotarnir lifi sig ekki í leikinn. Það var líka gaman að fylgjast með ítölunum sem voru nokkrir mættir þarna. Menningaheimur þessara tveggja landa er svolítið ólíkur og sást það berlega á því að Skotarnir heltu þarna í sig "pinturum" á meðan ítalarnir sötruðu á rauðvíni.

Ég er búinn að vera svakalega duglegur í eldhúsinu að undanförnu og nokkuð ljóst að maður er búinn að taka gríðarlegum framförum í eldamennskunni (þurfti kannski ekkert sérstaklega mikið til) Í gær eldaði ég t.d lasagne að hætti Mexicana og verð ég bara að gefa mér hæstu einkunn fyrir framtakið. Í kvöld er ég að hugsa um að hafa bara eitthvað einfalt og fljótlegt sem má ekki vera of þungt í maga. Þannig er nefnilega mál með vexti að ég er búinn að vera mjög slappur í dag og matarlistin ekki alveg uppá 10 núna. 

Óli Stefán ....... sem er búinn að venja sig á það að vaska alltaf upp strax eftir eldamennsku


Lagalistinn

Ég sit núna inní stofu og eiginlega bíð bara eftir því að afmæli systur minnar hefjist. Þar sem ég þarf að glamra á gítarinn í kvöld er ég svona að fara yfir lagalistann.Sem harður Bubba aðdáandi þá verður hann mest á boðstólnum í kvöld. Sagan segir manni það að það kunna flestir í svona partýum Bubbalögin og þar sem ég á afskaplega erfitt með að syngja með gítarnum þá er best að bjóða upp á lög sem að flestir kunna og þar með flestir syngja með. Í dvd spilaranum eru afmælistónleikar SSSól og verð ég að viðurkenna að þeir eru djöflanum betri. Bara út af því að ég er búinn að hlusta á þennan disk meir en góðu hófi gegnir þá hefur það auðvitað áhrif á lagalistann og er ég búinn að bæta inn lögum eins og "Ef ég væri guð" og "Húsið og ég". Einnig er á listanum að finna slagara eins og "O baby baby" og "Ceep" ásamt fleiri góðum lögum. Í tilefni þess að Jonny Cash hefði veri' búinn að vera edrú í 43 ár i dag ætla ég einnig að skella inn "Folsom prison blues" og fá Helgu eldri systur mína til að taka bakröddina. Hver veit nema maður verðu í þannig stuði í kvöld að lög eins og "When im sixty four" og "Let it be" fái að fljóta með en það verður tíminn einn að leiða í ljós.

Óli Stefán....... sem að hefur valið elsta og besta gítarinn sinn í verkefni kvöldsins. 


Næsta síða »

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband