Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Georg Bjarnfreðarson

Mikið svakalega hefur maður nú haft það gott yfir blessuð jólin. Maturinn hefur runnið niður eins og maður hafi fengið borgað fyrir hvern bita og sófinn verið minn aðalstaður síðustu daga. Ég horfi afskaplega mikið á sjónvarpið og er t.d kominn langt með Næturvaktina sem stöð 2 sýndi fyrir skömmu og var ég sko ekki svikinn af þeirri þáttarröð. Ég hafði heyrt mikið um þessa þætti talað og þá mest um þann karakter sem Pétur Jóhann leikur en mér fannst hins vega Georg Bjarnfreðarson sem er leikinn af snillingnum honum Jóni Gnarr stela senunni. Þessi karakter fer á stall með meisturum Þór og Danna í Nýju lífi.

Úr því að maður hunskast til að borða eins mikið og raun ber vitni verður maður að taka afleiðingunum og hreyfa sig þeim mun meira og er ég búinn að leggja nokkra kílómetrana að baki yfir jólin. Með miklum dugnaði og eljusemi hefur stráknum tekist að halda sama kílófjölda og maður var í fyrir jólin.

Senn líður að nýju ári og ef maður lítur aðeins um öxl og skoðar afrek ársins 2007 held ég að maður geti nú bara verið nokkuð sáttur. Ég fór þrjár utanlandferðir á árinu ,tók á móti bikar fyrir lið mitt, hóf nám í sjúkraliðanum, tók sirkusvíti í leik á móti Reyni Sandgerði, sem var reyndar varið og skipti svo um lið í fyrsta skipti á ferlinum (utan lánstíma hjá Þrótti Nes 1995). Þegar upp er staðið var ár sjöunnar  viðburðaríkt og árangursríkt og mun lifa í minningunni um ókomin ár.

Óli Stefán..... sem að undrast á ákvörðun jeppamanna að þvælast uppá jökul vitandi það að stormur væri væntanlegur 


Gleðilega hátíð

Já haldið þið ekki að það sé bara 22.des í dag og þar með stysti dagur ársins. Það fer allt uppá við hér eftir.

Við Fjölnismenn ætlum í tilefni þess að gera okkur glaðan dag og er ég í þessum skrifuðu orðum að bíða eftir Óla Palla og Dabba Rúnn því þeir ætluðu að ná í mig og svo hittumst við niður í bæ þar sem við förum að borða saman. Eftir matinn er síðan planið að kíkja heim til meistara Péturs í gítar og bjór.

Ég má nú samt ekki missa mig í fjörinu því framundan er 5 tíma keyrsla austur á Hornafjörð á morgun. Eins og spáin er núna þá lítur út fyrir að maður verði að berjast við veðrið.

Ég kem örugglega ekki til með að henda inn færslu fyrir jólin því nota ég þetta tækifæri til að óska öllum vinum og óvinum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Óli Stefán.....sem er enn að bíða eftir þeim félögum 


Cooper test

Klukkan 18.00 í kvöld mætti svona þokkalega hress hópur Fjölnismann á Kópavogsvöll til að takast á við þetta umdeilda próf. Ég segi þokkalega hress hópur því að við vorum örfáir sem vorum hressari en aðrir við mætingu eingöngu út af því að við vissum ekki hvað við vorum að fara útí. Hinir sem vissu nákvæmlega hvað við vorum að fara útí voru auðvitað ekki upplitsbjartir. Eftir 12 mínútur í helvíti veit ég núna hvað það var sem var að hrjá þessa ágætu herramenn fyrir hlaupið. Ég á held ég ekki til nógu vont lýsingarorð sem að gæti mögulega lýst þessu ógeði. Copper test gengur út á það að hlaupa eins langt og maður getur á 12 mínútum og það sem verra er að það er lámarkslengd sem að menn verða að ná sem eru 7 og hálfur hringur á hlaupabraut sem er 400 metrar. Það gerir samkvæmt minni einstöku reikniskunnáttu 3 km. Ég var 10 metrum frá lámarkinu sem þýðir að ég hef hlaupið 2990 metra á 12 mínútum í veðri sem hefði gert það að verkum að heimsmet hefði ekki staðið því vindurinn var ógurlegur í bakið en það gerir það svo einnig að  verkum að hann var óhuggnalegur þegar að svo átti að fara að berjast á móti honum.

Niðurstaða mín er að mér finnst það afrek af minni hálfu að hafa náð þó þetta langt ef maður reiknar inn aldur, þyngd og fyrri störf (bjór um helgina). Ég veit líka alveg að það var ekkert sparað og féll strákurinn  næstum því í yfirlið þegar að ég loks stoppaði. Þeir bestu náðu að ég held 8 hringjum og 1/4 sem að gerir 3300 metra og hef ég því 6 mánuði til að koma mér í þannig stand að ég geti bætt mig um 310 metra á 12 mínútum

Óli Stefán......sem að var á fimmta hring alvarlega að spá í að leggja skóna á hilluna frægu 


Jóla hvað?

Alveg finnst mér þessi jólatími pirrandi. Allt að drukkna úr stressi og skammdegið alveg í essinu sínu. Til að bæta svo gráu ofan á svart þá hefur hver lægðin af fætur annarri ráðist á okkur með öllu sýnu veldi. Ég er að vísu ótrúlega tímanlega í öllum undirbúningi fyrir jólin og er búinn að kaupa flest alla pakka sem ég gef frá mér. Yfirleitt afgreiði ég pakkana á svona 1-2 tímum á Þorláksmessu en tímarnir breytast og mennirnir með. Eftir pakkaopnanirnar á aðfangadag þá er fólk svo uppgefið á öllu stressinu að það nánast liggur fyrir í 2 daga til að safna orku aftur. Ég er semsagt ekki þetta jólabarn og hef aldrei verið. Önnur hver jól er ég með eldri son minn hjá mér og þá næ ég aðeins að lifa jólin svolítið í gegnum hann og þar sem hann verður með mér núna verða þessi jól góð. Við verðum austur á Hornafirði hjá foreldrum Guðrúnar og þar á sko ekki eftir að fara illa um mann frekar en fyrridaginn og maður kemur sko til með að láta stressið líða úr sér í heita pottinum þar.

Óli Stefán..... sem að er að fara á æfingu þannig að það er ekki tími fyrir lengri svartsýnisræðu í bili. 


Gítarklúbburinn Cisero

Við vorum nokkrir drengir út Grindavíkinni sem stofnuðum á sínum tíma þennan snilldar gítarklúbb. Hugmyndin var að koma með mótsvar kvenna við saumaklúbbum sem allar konur virðast vera í. Munurinn á okkar klúbb er sá að við mætum með gítar og spilum hin ýmsu lög. Meira að segja voru samin helvíti góð lög þarna, að okkar mati allavega. Við erum meira að segja með heiðursfélaga í klúbbnum en það er enginn annar er Bjartmar Guðlaugsson en við spiluðum með honum nokkur lög í útvarpinu á sínum tíma.

Nú í seinni tíð hefur minna farið fyrir þessum klúbb þó að við hittumst alltaf reglulega einhverjir úr þessum klúbbnum. Ég og Unndór Sigurðsson erum t.d mjög duglegir að hittast og spila og er hann einmitt á leiðinni til mín núna í mat og gítar. Snilldin við það að hittast svona og spila er sú að Unndór er þónokkru betri en ég á gítar þannig að alltaf læri ég eitthvað nýtt. Þeir sem hafa heyrt mig spila vita sjálfsagt að mrs Robinson er eitt af þeim lögum sem mér finnst skemmtilegast að spila en það var einmitt títtnefndur Unndór sem kenndi mér það lag. Í kvöld munum við félagar fara í gegnum Bítlana og auðvitað meistara Johnny Cash

Óli Stefán......sem ætlar að elda fyrir karlinn kjúklingabringur að hætti Sigga Hall og Jacob´s Creek "SHIRAZ CABERNET" rauðvín með. 


Þreyttur

Mikið svakalega er maður eitthvað dasaður núna. Það er allur vindur úr manni eftir þessa próftörn en ég kláraði hana formlega um 11 í morgun með því að skila ritgerð um sjálfsmynd barna og unglinga. Ég var að til 04.30 í nótt þannig að ekki er maður nú búinn að sofa mikið síðasta sólarhringinn.

Í kvöld spiluðum við Fjölnismenn við Leikni úr Breiðholtinu. Ég væri hreint og beint að ljúga ef ég segði að ég hafi verið meiriháttar vel stemmdur fyrir leikinn. Illa sofinn og hálf svangur spilaði ég leikinn og það í 90 mínútur. Reyndar fengum við ekki nema eitt mark á okkur núna sem verður að teljast framför þar sem við höfum verið að fá svolítið af mörkum á okkur í síðustu leikjum. Karlinn slapp svona stórslysalaust í gegnum leikinn ef frá eru taldar nokkrar feilsendingar sem að er ekkert nema einbeitningaleysi af hæstu gráðu. Leikurinn endaði síðan 3-1 fyrir okkur þar sem Tommi Leifs skoraði tvö og Óli Johnson eitt

Núna ligg ég bara í sófanum búinn að fá mér einn juleöl og auðvitað að horfa á SSSól DVD diskinn. Ekki á ég von á því að meika það mikið lengur þannig að ég ætla bara að leggjast útaf og láta Helga Björns syngja "ég stend á skýi" fyrir mig þangað til að ég dett útaf.

Óli Stefán..... sem að er mjög ánægður að vera búinn í prófunum 


Einstæðir feður.

Ég hef oft spáð í því hvað femínistar ganga oft langt í baráttu sinni um jafnrétti. Það er stundum gengið það langt að maður bara hristir hausinn. Hvernig er t.d hægt að gera mál úr því að það séu bara jólasveinar en ekki jólastúlkur eða meyjar. Ég t.d get bent á það að fráskildir feður eru svo rosalega undir í jafnrétti að það hálfa væri nóg. Reyndar verð ég að taka það fram að barnsmæður mínar eru snillingar og ekkert út á þær að setja en ég held að ég sé í miklum minnihluta. Ég heyrði t.d eitt í dag sem ég væri til í að komast að hvort að rétt væri. Þannig er að ef að barnsmóðir giftir sig og fellur svo frá þá á sá sem hún giftist allan réttinn á að hafa barnið?? Getur verið að svo sé? Veit einhver hvort að þetta geti verið svo rosalega ósanngjarnt? Af hverju er t.d svo rosalega sjálfsagt að mæður taki barnið við skilnað? Móðurréttur er svo rosalega sterkur segja þær en er það sanngjarnt? Auðvitað eru til alveg fullt af körlum sem ekkert vilja taka þátt í uppeldinu og jafnvel bara fegnir að vera lausir við ábyrgðina. En svo er líka til alveg fullt af körlum sem vilja umfram allt taka þátt og vera með eins og vera ber. Ég veit um mörg dæmi þar sem konur t.d nota börnin sem vopn þ.e "ef þú gerir ekki þetta þá færð þú bara ekkert að hitta börnin". Þetta er alltof algengt og á ekki að líðast. Þið femínistar ættuð kannski að koma í lið með einstæðum feðrum og reyna aðeins að jafna rétt þeirra. Ég tek enn og aftur fram í tilefni af þessari færslu að ég á alveg hreint frábærar barnsmæður og þær koma vel á móti mér til að uppeldi barna minna verði sem best.

Óli Stefán.....sem að er að fara að spila við Leikni Reykjavík í Egilshöllinni á morgun kl 20.00 


Leiðinlegustu þættir sem sögur fara af

Já það er óhætt að skjár einn sé að bjóða uppá tvo alveg hreint óþolandi leiðinlega þætti þessa dagana. Reyndar er annar af þessum þáttum bara alltaf á og virðist engan endi taka en það er þátturinn Amerika´s next top model. Ég ætla ekki að geta líst þeirri ógeðis tilfinningu sem að fer um mig þegar að þetta rugl er á. Svo er það þátturinn Charmed sem er um einhverjar nornir eða eitthvað og það er eins með þennan þátt að hann virðist bara lifa endalaust.

Ég hafði rosalega gaman að Jay Leno og var því fúll yfir þeirri ákvörðun þeirra á skjá einum að taka hann af dagskrá. Núna eru þeir að endursýna gamla þætti á þessum tíma eða um 23 á kvöldin. Mér finnst það alveg gott og gilt en verða samt að velja efni sem að hæfir þessum tíma.

Reyndar eru margir góðir þættir á Skjá einum sem að ég elska að horfa á og er þetta mín uppáhald sjónvarpsstöð bara fyrir það eitt að þeir bjóða uppá fría dagskrá. Þar með er ég alveg rólegur yfir þessum auglýsingum sem koma í þættina því að með því lifir þessi stöð. Hins vegar er það bara dirty þegar að Rúv og stöð 2 gera þetta.

Fyrst maður er kominn í auglýsingatalið þá get ég ekki á mér setið í sambandi við auglýsingar í bíó. Ég gjörsamlega get ekki þolað það að maður sé að borga einhvern 900 kall fyrir myndina og ná sér svo í popp og kók á 5000 kall bara til að setjast niður og horfa á auglýsingar í svona 20 mín. Þegar að myndin svo byrjar er helvítis poppið búið. Að maður sé að borga sig inná mynd til að horfa á auglýsingar er bara ekki bjóðandi enda er ég farinn að mæta á myndir svona 10 mín yfir áætlaðan tíma.

Óli Stefán.....sem að notaði pásuna úr próflestri í þessa færslu 


Fyrsti sigurinn

Í gær tókst okkur Fjölnismönnum að innbyrgða okkar fyrsta sigur á þessu tímabili. Við unnum bikarmeistara FH 4-3 og er þetta að ég held í fyrsta skipti síðan 2002 sem að mér tekst að vinna þessa djöfla. Það var margt jákvætt í þessum leik og erum við að spila betur og betur í hverjum leiknum sem líður. Hins vegar er margt sem þarf að laga og það eitt að fá á sig 3 mörk er eitthvað sem að er óásættanlegt að mínu mati. Síðasta mark þeirra var reyndar alveg hreint púra rangstaða þar sem þeirra maður var svona 3 metra fyrir innan þegar að hann fékk boltann. Við erum með þannig lið að við virðumst alltaf vera líklegir að refsa þannig að ef við náum að stoppa í götin í varnarleik liðsins þá ættum við að vera í fínum málum.

Leikurinn við FH fór fram í Kórnum í Kópavogi. Þetta er nýjasta knattspyrnuhöll okkar og verð ég að segja sú lang flottasta. Þarna er besta gervigrasið, bestu áhorfendastæðin og búningsklefarnir frábærir. Reyndar hjó ég eftir því að það vantaði alveg skortöflu þarna og spurning hvort að ekki hefði átt að koma henni upp allavega áður en þeir fóru að gera heiðursstúka þarna.

Eftir leikinn gerðist nokkuð skondið atvik þar sem yngsti leikmaður okkar Kristinn Freyr sem að meðal annars skoraði fjórða mark okkar í leiknum og stóð sig frábærlega kom alveg brjálaður inn í klefa og blótaði alveg hreint í sand og ösku yfir því að við hefðum ekki náð að vinna leikinn. Helvítis aumingjaháttur að láta þá jafna 3-3. En svosem alveg skiljanlegt að svona ungir pjakkar klikka á talningunni þar sem hann er að ég held aðeins 16 ára gamall

Óli Stefán.....sem er veikur að reyna að læra undir heilbrigðisfræðipróf


Box

Eins mikið og ég er nú fyrir íþróttir þá verð ég bara að viðurkenna það að ég hef aldrei náð að falla fyrir boxinu. Ég hins vegar get horft á allt mögulegt frá formúlunni og golfi upp í skautadans. Boxið hefur bara aldrei náð til mín. Ég ætla mér þó aldrei að fara að gera lítið úr annars þessari ágætu íþrótt því það eru furðulega margir sem hafa gaman af því að sjá hvern vitleysinginn á eftir öðrum lemja hvorn annan við mikinn fögnuð almúgans.

Það kom á fótbolta.net skemmtileg frétt í gær þar sem greint var frá því að hinn mjög svo skemmtilegi þjálfari (mundu eftir þessu þegar þú velur í liðið í dag Ási) Ásmundur Arnarsson hafi gefið okkur leyfi til að horfa á stórbardagann í boxinu sem hófst að ég held kl 04.00 í nótt. Við eigum náttúrlega stórleik við FH í dag þannig að þarna tekur Ási í annan pól en starfsbræður hans á Englandi og verður tíminn einn að leiða það í ljós hvort að þetta virkar hjá honum. 

Ég mundi hins vegar frekar leggja það á mig að vaka eftir gömlum CSI þætti heldur en þessu boxi þannig að ekki lagði ég þetta á mig. 

Óli Stefán......sem ætlar að leggja það á sig að fara á Players kl 13.30 í dag, þegar að þeir sem horfðu á boxið eru enn sofandi, að horfa á Middlesbrough-Arsenal


Næsta síða »

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband