Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Herþjálfun

Já það er ekki tekið út með sældinni að vera knattspyrnumaður í dag. Núna eru 9gráður í mínus og völlurinn sem við erum yfirleitt á ófær í orðsins fyllstu merkingu. Fyrir þjálfara er því upplagt að skella á ógeðisæfingum og er Ásmundur engin undartekning þar á. Karlinn ætlar að hafa æfingu frá helvíti á morgun þar sem við fáum að hlaupa úr okkur lungun áður en við förum inn í herþjálfun. Eftir herþjálfunina á svo að fara inn í lyftingar.

Þeir sem hafa æft með mér í gegnum tíðina vita væntanlega að þetta er ekki uppáhaldið mitt en auðvitað gerir maður sér grein fyrir því að þetta er nauðsynlegt til að vera í standi þegar flautað verður á fyrsta leik. Við erum búnir að æfa vel og því ekkert skrítið að það fari nú að sjást árangur af þessu öllu saman. Í lyftingunum mældum við max í nokkrum æfingum áður en byrjuðum fyrst og eru nú rúmir 2 mánuðir síðan. Núna finnum við nú flestir að við erum að ná yfir það sem við gátum fyrst þannig að eitthvað erum við að gera rétt. Nú það er kannski rétt að það fylgi að pjakkurinn er kominn í 82kg eftir að hafa verið rúm 86 í byrjun enda er Gunni Valur alltaf að tala um hvað hann vildi vera með svona six pack eins og er komið á mig.

Ég verð að lokum að skella einum helvíti góðum sem ég las á netinu í gær svona til að létta mönnum lundina fyrir actionið á morgun.

Hjón nokkur eru á mjög fínu veitingahúsi að borða þegar allt í einu birtist gullfalleg stúlka við borðið þeirra og gefur manninum svakalegan koss, beint á munninn, segist ætla að hitta hann seinna og hverfur jafn skyndilega og hún birtist.

Konan hans starir á hann og segir: "Hver í veröldinni var þetta??"

"Ó, þessi ? Þetta var viðhaldið mitt, " segir hann rólegur.

"Jæja já !! Þetta fyllir mælinn. Ég heimta skilnað."

"Ég get skilið það," svaraði eiginmaðurinn, "en mundu eitt, ef við skiljum þá þýðir það að þú ferð ekki fleiri verslunarferðir til Parísar, ekki fleiri vetrarferðir til Barbados, ekki fleiri sumarferðir til Toscana og það verða ekki lengur BMW og Porsche í bílskúrnum þínum.

Þú missir klúbbskírteinið í skútuklúbbnum og þú þarft ekki mæta meira í golf,

en ákvörðunin er þín."

Í þessu  kemur sameiginlegur vinur þeirra inn á veitingahúsið með stórglæsilega stúlku uppá arminn.

"Hver er þessi kona með Svenna?" spyr konan.

"Þetta er viðhaldið hans, " svarar eiginmaðurinn.

Þá segir konan: "Okkar er sætari!"

 

Óli Stefán......sem að er að fara á kostum í eldhúsinu 


Munnharpa

Ég lenti í smá partí um jólin fyrir austan hjá Sindra félaga mínum. Ég hjó eftir því fljótlega eftir að við komum inn að þar var allt fullt af hljóðfærum meðal annars munnhörpur af öllum stærðum og gerðum. Ég auðvitað spurði Sindra hvort að hann spilaði á munnhörpu en hann tjáði mér að faðir hans ætti þetta og þætti fátt skemmtilegra en að spila á þetta hljóðfæri. Fyrr á þessu ári keypti ég mér blúshörpu og kennslugögn til að læra og gekk það ótrúlega vel í svona 2 vikur en þá lagði ég hana á hilluna sem að auðvitað er hálf skömmustulegt en það er ástæða fyrir ást minni á þessu hljóðfæri. Seinna um kvöldið þegar ég var kominn með þennan líka fína gítar í hendurnar þá kom pabbi Sindra heim og auðvitað réðist ég á hann um leið og fékk hann til að spila með okkur. Það er ekki laust við að karlinn hafi slegið í gegn við lag Bubba Afgan sem að hann by the way hafði aldrei heyrt áður. Hér er hægt að sjá brot úr spilinu okkar og hér með söng sem er ekki okkar sterka hlið....

 

Óli Stefán.......sem að er guðs lifandi feginn að þurfa ekki að æfa í dag 


U2

Ég hef frá því að ég var 11ára gutti í Grunnskóla Grindavíkur verið harður aðdáandi þessarar miklu hljómsveitar sem U2 er. Ég man svo nákvæmlega af hverju ég byrjaði að hlusta á þá í kassettutækinu sem ég átti en sá sem kom mér til að hlusta á þá var engin annar en Jón Gauti Dagbjartsson. Hann var að spila þetta heima hjá sér þegar að ég var í heimsókn hjá Sibba bróður hans og tók okkur í smá kennslustund um rokkið. Frá þeirri stund hef ég elskað þessa Írsku djöfla.

Lagalisti U2 er ótrúlegur og það er nánast alveg sama hvað þeir gera nú til dags þetta verður allt að gulli. Þeir eru fyrir löngu búnir að slátra Bítlunum og Roling Stones en fyrir utan það að vera frábærir tónlistamenn þá eru þeir talsmenn góðra málefna og láta gott af sér leiða. Bono hefur t.d verið valinn maður ársins fyrir baráttu sína fyrir fátæk ríki.

Í dag er ég að reyna að ná eitthvað af þessum lögum á gítarinn og gengur það svona svona því þau eru eins og flest lög miserfið. Það lag sem ég held mest uppá núna er lagið In a little while enda er ég alveg við það að ná því á gítarinn en ég ætla ekki einu sinni að gera tilraun á að syngja það.....

 

Óli Stefán......sem er að vonast til þess að Helga, Danni og strákarnir fái Arsenalsigur í kvöld fyrst þau eru nú á vellinum


Samanburður leikmanna

Nú í haust skipti ég um lið eftir mjög svo langa veru í Grindavík. Eins og gengur þá lærir maður margt nýtt og kynnist fullt af nýjum andlitum við svona breytingar. Í Grindavík er mikið samansafn af allskonar höfðingjum og átti ég satt að segja ekki von á því að það væru jafn mikið af snillingum í Fjölni eða bara hvaða klúbb sem er eins og í Grindavík. Eftir að hafa verið í kringum þessa stráka hér í Grafarvogi undanfarna mánuði sé ég að það eru margar týpur sem eru mjög líkar þeim í Grindavík. Svo að menn skilji nokkurnveginn hvað ég er að fara þá skal ég koma með smá samanburð.

Fyrst ber að nefna Ólaf Pál Fjölnismann en hann er drengur góður og mikill snyrtipinni sem er fljótur að láta í sér heyra ef að einhver í liðinu er ekki klæddur að hans skapi. Hver gæti verið svona í Grindavík? Jú hann Ray Anthony Jónsson ern nákvæmlega sami gaurinn. Hann gagnrýnir það að menn klæði sig í vitlausri röð þ.e ef menn slysast til að fara í sokkana á undan brókinni.

Næstur er það hinn öflugi kantari hann Tómas Leifsson Helgasonar (Pabbi hans þjálfaði Reyni Sandgerði hér áður og þekkja hann margir út Grindavík) Tommi er feimna týpan sem kemur með endalausa gullmola á hárréttum tíma. Við vorum með einn í Grindó sem að er svo líkur honum að það er fáránlegt en það er Óskar Hauks. Það eru bara nákvæmlega sömu taktar í gangi hjá þeim og svo eru þeir ekkert svakalega ólíkir leikmenn heldur.

Gunnar Valur heitir bakvörður okkar Fjölnismanna. Gunni er gríðarlegur keppnismaður og þolir ekki að tapa. Hann hikar ekkert við að láta menn heyra það og kemur þá allskonar vitleysa út úr honum. Ef að einhver gerir eitthvað inná vellinum sem honum finnst vera á hans kostnað þá launar hann manni lambið gráa......tífalt. Í Grindavík er drengur sem við könnumst nú all flestir vel við enda gull af manni.....eða þangað til maður hefur gert eitthvað á hans kostnað á vellinum þá breytist hann í HANK. Ég er auðvitað að tala um snillinginn Eystein "Steve Bruse" Hauksson. Þessir snillingar fara meira að segja báðir í sokkana á undan brókinni.

Gunnar Már er enn einn snillingurinn. Hann er tröll að vexti og er einn af þeim sem er með það á hreinu að dómararnir leggi hann bara fyrir. Hann vill meina að dómararnir haldi fundi þar sem lagt er á ráðin að taka hann fyrir með öllum ráðum. Þekkið þið einhvern svona í Grindavík? Sá talar allavega mikið um það sjálfur að vera norðantröll og nokkrum sinnum hefur hann talað um þessa dómarafundi nema þá séu þeir að ræða um hvernig eigi að koma honum úr íþróttinni, slík er dómgæslan honum í óhag. Auðvitað er þetta Orri Hjaltalín Sómasamloku prins

Jankó á fáa sér líka hér á landi. Hann er brandarakarl mikill og finnst ekkert skemmtilegra en að segja góða brandara eða sögur. Eins og svo margir brandarakarlar eiga þeir svolítið erfitt að verða fyrir barðinu sjálfir. Einn er svona hér hjá okkur í Fjölni og er hann meira að segja þjálfari líka en það er aðstoðarþjálfarinn hann Kristófer Sigurgeirsson.

Það eru fleiri sem ég á eftir að telja upp og geri það á næstu dögum. Ég á t.d eftir að nefna hver er Jói Helga okkar Fjölnismanna og svo Davíð Þór Grindvíkinga en þar er úr vöndu að velja.

 

Óli Stefán.....sem að reyndist sannspár með mótherja Arsenalmanna í bikarnum 

 


Enski og íslenska landsliðið í handbolta

Mínir menn fóru frekar þægilega í gegnum 4.umferð í enska bikarnum. Arsenal vann Newcastle 3-0 og voru vel að sigrinum komnir því þeir spiluðu fantabolta í seinni hálfleik. Ég er alveg pottþéttur á því að við fáum United eða Liverpool úti í næstu umferð eins og við höfum verið að fá síðustu ár í 16 liða úrslitum.

Ég eins og flest allir á Íslandi fylgdist með íslenska handboltalandsliðinu í Noregi síðustu viku. Menn eru flesti á því að okkar menn hafi ekki staðið undir væntingum og má svosem vel vera. Ég er ekki mikill handboltaáhugamaður nema þá í þessum stórmótum en ég hef til að mynda aldrei farið á handboltaleik. Ef maður skoðar andstæðinga okkar sem við töpuðum fyrir sem eru Svíþjóð, Frakkland, Þjóðverjar og Spánverjar er þá hægt að búast við einhverju öðru en tapi? Auðvitað detta okkar menn inná toppleiki og vinna þessi lið öðru hvoru en að ætlast til þess að vinna öll þessi lið á einu og sama mótinu er bara öfga bjartsýni. Það á að sleppa því að spenna bogann í botn væntinganna fyrir svona mót því að alltaf þegar að það gerist þá brotlendum við hrikalega.

 

Óli Stefán....sem að óskar Birni Óskari til hamingju með nýja og glæsilega íbúð sína í Kópavoginum


Fjölnir-Valur

Það fór þá þannig að við gerðum jafntefli við Val í fyrsta leik okkar í Reykjavíkurmótinu. Við vorum ekkert að spila sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Valsarar hefðu getað bætt við mörkum en þó áttum við að fá augljósa vítaspyrnu í lok hálfleiksins þegar að boltinn fór augljóslega í hönd varnarmanns þeirra. Garðar Örn einn af okkar betri dómurum flautaði bara til lok hálfleiksins í staðinn og vildi ekkert tjá sig um málið. Í seinni hálfleik buðum við uppá miklu betri bolta og menn að verða sjálfum sér líkir. Við fórum að ógna þeim sem endaði með því að hinn knái kantmaður Tómas Leifsson skoraði þetta líka hörku mark af einhverjum 30 metrum. 

Fjölnir er með ungt og óreynt lið og því ekkert ótrúlegt að sumir af þessum strákum beri óþarflega mikla virðingu fyrir liði eins og Val. Valur er með frábært lið og ekki nema sjö landsliðsmenn sem byrjuðu leikinn í gær. Þegar á leikinn leið þá hvarf virðingin og menn fóru að spila eins og menn. Ef að við mætum til leiks eins og í seinni hálfleik þá getum við strítt hvaða liði sem er á landinu ef ekki þá gæti illa farið.

 

Óli Stefán.......sem er að fara að vinna á herrakvöldi Fjölnis í kvöld 

  


Reykjavíkurmót

Nú fyrst er ég að verða Reykvíkingur, þó að ég sé náttúrlega fyrst og fremst Grindvíkingur, en þá er að byrja svokallað Reykjavíkurmót hjá mínu liði á morgun og er af skiljanlegum ástæðum minn fyrsti leikur í þessu móti.

Andstæðingar okkar verða hinir rauðhvítu drengir sem kenna sig við Val. Við höfum spilað við þá æfingaleik í vetur en þá höfðu Valsarar betur 5-3 eftir að við höfðum verið yfir 1-3 í hálfleik. Valur er auðvitað Íslandsmeistari þannig að um hörkuleik er að ræða en þannig vill maður hafa þetta. Leikurinn hefst kl 19.00 í Egilshöllinni.

 

Óli Stefán....... sem að var að borða þennan líka fína plokkfisk 

 


Kolvetnis drykkurinn ISODRIVE

Strákurinn fór á heldur skemmtilegan fund í kvöld. Þannig var mál með vexti að Ási fékk til okkar næringarfræðing frá EAS vörum. Hann fór ágætlega yfir sín mál og ef menn hafa áhuga á að bæta árangur sinn þá held ég að fyrsta skrefið sé að skoða þessi mál hjá sér. Það eru flest allir í okkar liði allavega ekki að borða rétt og spá sjálfsagt ekkert í þessum málum. Eftir að hafa tekið næringarfræði í skólanum í haust þá vaknaði maður aðeins og er ég að vinna vel í þessu hjá mér.

Fundurinn var eins og áður sagði skemmtilegur en lítið vissi ég að skemmtanagildið kom víst á minn kostnað. Þannig var að eins og er oft í skólunum þá hópast leiðinlegu strákarnir oft saman og eru svona að brandarast á kostnað þeirra sem að vilja læra. Þessar týpur verða alltaf að vera einn af hópnum og þora ekki að sína frumkvæði og þora ekki annað en að hlæja að mjög svo aulalegum og barnalegum húmor sem að aðalstrákurinn stendur fyrir. Næringarfræðingurinn var semsagt að tala um kolvetni og benti auðvitað á sína vöru sem kallast Ísodrive. Það vill svo skemmtilega til að ég er að nota þessa vöru og var með hana í töskunni. Ég ákvað að taka dunkinn upp og sýna þeim sem hefðu áhuga á að skoða kolvetnið eitthvað nánar en þá sá þessi leiðinlegi hópur sér leik á borði og undir styrkri stjórn Davíðs Þórs og Eyþórs hvísluðust þeir sig saman og sögðu að  þarna væri ég,bara að sýna þjálfaranum að ég væri sko að nota þetta og monta mig á því. Skelltu þeir síðan uppúr og flissuðu eins og litlar smástelpur. Það sem síðan særði mann mest var að aðstoðarþjálfarinn tók þátt í þessum barnaleik.

Sem betur fer er maður nú með "langt bak" eins og Alli píp orðaði svo skemmtilega, og því undir svona óþokka búinn. Það mikilvæga í þessu öllu saman er að nú veit Ási að ég tek þetta kolvetni og er ég því kominn með prik í kladdann Cool

 

Óli Stefán....... sem að fagnar því að Óli Stefán........s ætli að spila á móti Þjóðverjum á morgun 


Helgin

Í gær spiluðum við Fjölnismenn við Berta sperta og félaga í ÍBV. Leikurinn fór fram í blanka logni og 15 stiga hita í Egilshöllinni. Félagi minn hann Albert Sævars var þarna að spila sinn fyrsta leik fyrir þá hvítklæddu og er óhætt að segja að karlinn hafi rifjað upp gamla takta því drengurinn fór á kostum. Hann varði hvað eftir annað á undraverðan hátt og hélt sínum mönnum inní leiknum því við vorum að mér fannst að yfirspila þá (kannski hlutdrægur en þetta á að vera kalt mat). Eyjapeyjar komust síðan frekar óverðskuldað yfir í einni af þremur sóknum sínum í leiknum og ekki mikið eftir en Dabbi sá til þess að við töpuðum ekki fyrsta leik ársins og fór leikurinn 1-1.

Þegar að þessum leik var lokið kom maður sér bara fyrir í stofunni heima til að horfa á Ísland spila í handboltanum. Ég hef nú ekki endalaust vit á þessari annars ágætu íþróttagrein en mér fannst, þó að við höfðu gegnið frá Slóvökum í fyrri hálfleik, að sóknarleikurinn væri bara lélegur. Mér fannst það sama á móti Svíum en nú var vörnin bara svo svakaleg að við skoruðum endalaust af hraðaupphlaupum. Þegar að þeir náðu að stilla vörnina sína þá vorum við í vandræðum. Vona bara að sóknarleikurinn nái að blómstra í dag á móti Frökkum. 

Eftir leik í gær horfði ég á laugardagslögin og var svo sofnaður um 22.00 en það held ég að hafi ekki gerst frá því að ég komst til vits og ára enda var ég vaknaður fyrir allar aldir í morgun.  

 

Óli Stefán...... sem er að reyna að læra Drive með Incubus á gítarinn


Janis Joplin

janis_joplin[1]Þessi elska hefði nú bara orðið 65 ára á morgun ef að hún hefði lifað blessunin. Ég er og hef alltaf verið rosalega hrifinn af lögum hennar. Röddin er bara svo sérstök og sér á báti að maður getur ekki annað en hrifist af henni. Þó að Janis hafi átt fjöldann allan af góðum lögum hefur mitt uppáhalds lag verið summertime. Hún samdi það lag að vísu ekki en gerði það ódauðlegt í sínum búningi. Fleiri snilldar lög hennar eru lög eins og Mercedes Bens, Cry Baby og Me and Bobby Mcgee. (Einhvernvegin finnst mér eins og að Kris Kristoferson hafi samið það lag en er ekki viss um það samt.) Í kvöld í kastljósi heyrði ég Jenna í Brainpolice taka lag hennar pice of my heart og fannst mér það bara vel gert. Það eru ekki margir sem geta sungið eins og hún. Þegar ég var 16 ára að koma úr einni af minni fyrstu fótboltaæfingaferð erlendis keypti ég bestof disk hennar og spilaði öllum stundum. Félagar mínir þeir Óli Bjarna og Helgi Rúnar gerðu svo mikið grín af þessum fáránlega tónlistasmekk mínum að ég fór að hlusta á hana í laumi. Þannig var ást mín á Janis yfir erfiðustu unglingsárin eða þangað til ég varð nógu hugrakur að taka diskinn fram aftur og hlusta á hann meðal almennings. Í dag gæti ég ekki verið stoltari af því að finnast Janis Joplin ein af merkari tónlistakonum sem komið hafa fram á sjónarsviðið fyrr og síðar.

 

Óli Stefán.....sem að hefði gaman af því að sjá hvernig hún Janis hefði litið út í dag 65 ára gömul eftir allt sukkið á henni. 


Næsta síða »

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband