Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Sjaldan lognmolla í kringum þetta blessaða Fjölnislið

Við spiluðum í gær næst síðasta leik okkar í lengjubikarnum á móti Víking úr Fossvoginum. Í dag telst það til tíðinda ef að við spilum leiki úti á þessum árstíma en sú varð raunin í gær. Ekki er hægt að segja að við höfum verið neitt rosalega heppnir með veður og þó að menn hafi reynt sitt besta í að vera ofur jákvæðir þá fauk það nú fljótlega út um veður og vind í bókstafslegri merkingu. Þvílíkur vindur og þvílíkur kuldi sem boðið var uppá og stóð vindurinn alveg á annað markið. Úr varð bardagi sem að ég held að bæði lið vilji gleyma sem fyrst því ekki var hægt að bjóða uppá neinn bolta. Boltinn fauk hvað eftir annað út í rassgat og var hann á köflum meira utan vallar en innan. Ljósi punkturinn er þó að Biggi litli Jörgensen skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark í sínum fyrsta meistaraflokksleik og það í sinni fyrstu meistaraflokkssnertingu.

Mikil eftirvænting hefur verið vegna herbergisskipan úti í Portúgal en þjálfi hefur þann sið að raða niður í herbergin sjálfur. Ég man svosem eftir því að þetta hafi verið gert áður en það var þegar að ég fór í keppnisferð í 3.flokki til Færeyja og Gulli Jóns raðaði niður í herbergin. Ég er þó viss um að flestir séu nokkuð sáttir nema kannski Óli Palli sem þarf að vera með minnimáttarkennd í heila viku en hann lenti með Eyjó í herbergi.

Það er bara nánast allt klappað og klárt fyrir ferðina hjá manni en ég á reyndar eftir að henda í eina vél svo að öll fötin séu nú hrein og fín. PS2 fer á sinn stað og í fríhöfninni verður svo fjárfest í Tiger 08. Úti verður svo skellt á keppni en ég er þrefaldur Tiger æfingaferðarmeistari og á ekki von á því það verði nein breyting á. 

Það eina sem er að trufla mig í sambandi við þessa ferð er helvítis veðrið en í Albufera er ekki nema 23 stiga hiti og sól.

 

Óli Stefán......sem að heldur því fram að hættulegasta herbergisparið úti séu þeir Halldór Ásgrímsson og Þórður Ingason. 


Allt í gangi

Ekki er hægt að segja að maður hafi nú verið yfir sig ánægður með úrslit helgarinnar. Auðvitað kláruðu United menn Liverpool enda heitasta liðið akkúrat í dag. En það að mínir menn hafi tapað fyrir tapað fyrir Chelsea var alveg skelfilegt. Jafntefli hefði verið alveg sanngjörn úrslit en það er erfitt að eiga við helvítið hann Drogba í svona stuði. Maður verður bara að játa það að útlitið er ekkert sérstakt en það er samt ekki öll nótt úti enn því að Chelsea og Man Utd eiga eftir að spila og svo eigum við eftir United úti. Við sjáum hvað setur en ég nenni ekkert að vera að grenja þó að við vinnum ekki þetta árið því að framtíðin er svo sannarlega okkar. Arsenal hefur tapað tveimur leikjum í vetur en öll jafnteflin á móti miðlungsliðum eru að verða nokkuð dýr.

Nú fer að styttast í sólina en við förum út á laugardaginn. Ég verð að viðurkenna að ég hef sjaldan verið svona helvíti spenntur fyrir svona æfingaferð eins og núna. Við Dabbi ákváðum fyrir margt löngu að verða herbergisfélagar þarna úti og orðnir bara nokkuð spenntir enda átti að setja upp þvíligt Tiger Woods mót í PS2 í okkar herbergi. Það er hins vegar að koma babb í bátinn því þjálfarinn er með einhverjar reglur um það hverjir verða saman og fellur það svo sannarlega í grýttan jarðveg hjá okkur félögum því að samkvæmt nánustu heimildum þá eru okkar nöfn ekki á sama herbergisnúmeri. 

 

Óli Stefán.....sem var virkilega sáttur við Mannaveiðar í sjónvarpinu í gær og Ólafur Darri fær 5 stjörnur frá mér fyrir týpuna sem hann leikur. 


Gleðilega páska

Það var kátt á hjalla hjá okkur Fjölnisstrákum á miðvikudag. Bæði kláruðum við cooper testið í vonandi síðasta skiptið á þessu ári og svo var okkur boðið í þessa líka veisluna af nýstofnuðu meistaraflokksráði. Ekki nóg með að hafa eldað fyrir okkur þá gáfu þeir forláta snyrtitösku þar sem búið var að sauma nöfn okkar á ásamt Fjölnismerkinu. Maður getur ekki annað en tekið að ofan fyrir þessu nýstofnaða meistaraflokksráði en þarna er valinn maður í hverju rúmi. Eftir þetta matarboð þeirra brugðum við enn og aftur á leik en í þetta sinn kíktum við í heimsókn til Gunna Má og skemmtum okkur alveg hreint ljómandi.

Annars er lítið að gera hjá manni þessa páska enda vinna alla helgina. Ég ætla þó að reyna að komast á skíði á morgun en það eru liðin ein 10 ár síðan ég fór síðast á skíði. Auðvitað eru síðan stórleikir í enska á morgun en það gæti farið svo að maður tæki samt skíðin fram yfir boltann í þetta sinn. 

Óli Stefán.....sem er ætlar að fá sér harðfisk í staðinn fyrir páskaegg 


Lagalistinn

Eins og áður sagði er cooper testið á eftir. Ég var svona að dunda mér við að gera rúmlega 12 mín lagalista á iPodinn og þar kennir ýmissa grasa. Ég ákvað að byrja rólega á lagi sem ég dýrka með Bubba og heitir Þú veist það núna en það tekur litlar 5 mínútur. Á þeim tímapunkti er maður orðinn vel þreyttur í hlaupinu þannig að næsta lag á að rífa mig upp og valdi ég því lag sem heitir welcome to the jungle með Guns'n roses. Þetta lag er rétt yfir 4 mín þannig að ég reikna með að vera kominn á gula ljósið á bensíninu. Lagið sem á að fara með mig alla leið heitir svo mikið sem Killing in the name of með Race against machine.

 

 

Óli Stefán.......sem að heldur að hann sé bara nokkuð klár í slaginn 


Cooper Test

Vá hvað ég hreinlega get ekki beðið eftir æfingunni á morgun. Þá hefur hinn smái en jafnframt knái þjálfari okkar sett upp æfingu sem ég er búinn að bíða eftir síðan í desember þegar að hann var með svona æfingu síðast. Já nú er nefnilega komið að Cooper testinu aftur en síðast var ég á barmi yfirliðs eftir þetta ógeð. Séra Pétur Markan sá þá hvað var að gerast hjá mér og stökk til í næsta vatnspoll og gusaði framan í mig ísjökul köldu vatni sem varð til þess að ég datt ekki útaf. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá og tugir kílómetra að baki þannig að maður ætti nú að sleppa betur út úr þessu hlaupi, sem fyrir þá sem ekki vita gengur út á það að hlaupa eins langt og maður mögulega kemst á 12 mínútum og það er lágmark sem að maður verður að komast í gegnum. Í desember var ég 15 skrefum frá lágmarkinu og stefni ég auðvitað ótrauður á að bæta þessi 15 skref upp. Til að stytta mér tímann hef ég svona verið að fara yfir ipotinn en ég hef verið að hlusta á of róleg lög í síðustu hlaupum sem líklega hafa haft áhrif á tímann en lög eins og Ég leitaði blárra blóma  með Herði Torfa og High með James Blunt hjálpa víst ekki til að ná lágmarkinu á morgun

 matthew_mcconaughey[1]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gunni Valur og Pétur Markan í síðasta cooper testi

 

 

 

Óli Stefán.......sem að er að skoða Speedo sundskýlurnar fyrir Portúgal


U2

Ég hef aldrei farið leynt með það hversu mér þykir þeir U2 menn svakalegir. Lög þeirra eru alveg mögnuð flest hver og ef maður hlustar á texta þeirra þá sér maður hvað þeir eru innihaldsmiklir. Það er alltaf saga á bakvið texta þeirra. Ég heyrði einu sinni viðtal við Bono þar sem hann fór yfir nokkra texta sem hann hafði gert og eftir það viðtal þá get ég ekki fengið leið á þeim lögum sem hann talaði um. Sometimes you cant make it on your own er t.d lag sem hann samdi um föður sinn sem glímdi við krabbamein.

 

Lagið Stuck in a moment er annað mjög innihaldsríkt lag en það samdi Bono um vin sinn Michael Hutcence söngvara INXS sem að fyrirfór sér. Hann talaði í viðtalinu um að þessi texti hafi verið eitthvað sem að hann hafi viljað segja við hann en verið of seint. Ef maður hlustar á textann þá sér maður alveg hvað Bono er að fara.

 

Óli Stefán.......sem vill fara að fá nýtt efni frá þeim félögum


Þvílík helgi

Þessi helgi stóð heldur betur undir væntingum hjá manni. Á föstudag fór ég á afmælistónleika Sálarinnar þar sem færri komust að en vildu. Ég var svo guðs lifandi feginn að hafa miða í sæti því að ekki hefði maður boðið í það að troðast á gólfinu. Sálin rúllaði yfir lagalista síðustu 20 ára og það er í raun ótrúlegt hvað þeir hafa náð mörgum góðum lögum. Hver einasti kjaftur gat sungið með öllum lögum.

Í gær fórum við Fjölnismenn síðan í nokkurnskonar Amasing race keppni þar sem liðinu var skipt upp í 5 lið og þurfti hvert lið síðan að leysa hinar ýmsu þrautir og taka upp á video til sönnunar. Auðvitað tókst lið Dabba Rúnars að vinna enda afbragðs myndband sem að þeir skiluðu inn þar sem að meðal annars Auddi Blö og Sveppi léku stórt hlutverk. Meistari Pétur Markan fór einnig á kostum þegar að hann dansaði kjöltudans við systur hans Geira. Hvert lið var með ákveðna þemu og komu Kristó spes og félagar þar sterkir inn þar sem mikið var lagt í búninga.  Um kvöldið bauð Gunnar Valur síðan í partí þar sem hvert lið sýndi sín myndbönd. Úr varð hin mesta skemmtun og eftir var gítarinn tekinn upp þar á milli þess sem að lágu í heljarinnar trúnó.

Óli Stefán......sem að er núna að súpa seyðið af helginni því að heilsan er ekkert spes


While my guitar gently weeps

Eftir pínu hlé vegna anna þá hef ég nú gripið í gítarinn og farinn að glamra á fullu. Alltaf þegar að maður fer að spila þá fær maður einhvern tónlistamann á heilann og fer að spila lög eftir þann aðila. Síðast var ég með James Blunt á heilanum og þar á undan meistara Johnny Cash. Núna er ég algjörlega að elska George Harrison gítarleikara Bítlanna. Þannig var að ég var í heimsókn hjá foreldrum mínum í vikunni og fór að horfa á minningartónleika um þennan fallna höfðingja og þá sá maður betur hvað hann átti mikið af frábærum lögum. Þegar að svo heim var komið fór ég á netið og náði í lögin með gripunum og byrjaði að spila á fullu. Mér fannst ég vera kominn með lagið While my guitar gently weeps uppá 10 þegar að ég fann svo þetta myndband á youtube. Ef maður hefði vott af þessum hæfileikum þá væri nú fyrst gaman að vera til

 

Óli Stefán.......sem að er að hugsa um að skella sér í gítarskóla í haust 

 


Mikið að gera

Það hefur eiginlega verið óvenjumikið að gera hjá karlinum síðustu vikur. Stundum getur verið erfitt að púsla saman námi vinnu og boltanum og ekkert óeðlilegt að það gangi ekki upp öllum stundum. Þessar síðustu vikur er það skólinn sem að hefur verið látinn sitja á hakanum og er það að koma í bakið á mér núna þar sem að fjöldinn allur af prófum og ritgerðum bíða mín.

Á æfingu í gær rann það upp fyrir mér núna á gamalsaldri að ég hef valið vitlausa stöðu á vellinum þegar að ég var að byrja sem ungur pjakkur. Þannig er mál með vexti að ég hef verið hálf slappur síðustu daga og í gær vantaði markmann á æfingu. Þarna sá ég mér leik á borði því að eins og alheimur veit þá er markmannsstaðan ekkert sú erfiðasta þ.e maður þarf ekki að hlaupa mikið. Ég fór í  rammann og það er engum blöðum um það að flétta að þarna fann ég mig. Á köflum í leiknum varði ég þannig að meira að segja Gunnar Valur sá sig fært um að henda hrósi á mig og það gerist víst ekki á hverjum degi á þeim bænum. Mitt lið tapaði með einu marki og er það eingöngu ótrúlega slöpp nýting á færum sem að varð okkur að falli. Ég held nú samt að þetta hafi verið minn svanasöngur á milli stanganna og skora ég Gunna Val að bjóða sig fram í markið næst þegar að okkur vantar markmann.

Næstu helgi hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu því að það er fyrsta helgarfríið sem að við fáum í tvo mánuði. Nefndin er á fullu að skipuleggja dagskrá á laugardaginn þannig að búast má við miklu fjöri. Nú er um að gera að nota þessa helgi því að næsta helgarfrí verður ekki fyrr en 18.okt.

 

Óli Banks...... sem að óskar Óla Palla og frú til hamingju með litlu prinsessuna sem að kom í heiminn á sunnudaginn. 


Hvers á maður að gjalda??

Ásmundur þjálfari boðaði okkur á æfingu einum og hálfum klukkutíma fyrr í dag vegna video fundar. Þar fékk ágætur leikur Fjölnis og KRinga sem fór fram síðustu helgi að fljóta og farið var yfir það sem betur mátti fara og einnig var nú stoppað þegar að menn gerðu vel. T.d var fyrsta mark okkar endursýnt fjórum sinnum og í fjórða skiptið var markið sýnt eins hægt og mögulegt var. Ef að KR komst nálægt okkar teig þá var stoppað og farið yfir það hvað ákveðinn varnarmaður sem að var númer 17var að hugsa í það og það skiptið og þegar að sending sem að þessi leikmaður ætlaði að koma yfir á Magnús Már klikkaði var stoppað og farið yfir það fjórum sinnum hvað maður var nú að spá. Allt þetta stóð maður af sér því að ég vissi nú sem var að ég átti eftir að setja hann í seinni hálfleik þannig að þá myndu mistökin fyrr í leiknum fall í skuggann á því. Nei haldið þið að Ásmundur hafi ekki bara tekið sig til og spólað yfir það mark!!! Ég sem betur fer hef, eins og Alfreð Jóhannsson sagði svo skemmtilega, langt bak og þoli því svona einelti. Meira að segja undir lok fundarins þegar að maður var að gráti kominn tók Kristó spes sig til og skaut mig í kaf með óþarfa kommenti. Þarna sá hann færi á að sparka í liggjandi mann og höggið langt fyrir neðan beltisstað.

94-11_f[1]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Kristó á æfingu í síðustu  viku

 

Óli Stefán..... sem að væri til í að vita hvaða sálfræðingur er að vinna með Tomma Leifs því að hann á langt í land blessaður 


Næsta síða »

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband