Skemmtilegustu og leiðinlegustu vellirnir

Ég er svona að velta fyrir mér hvar sé skemmtilegast að spila þ.e hvaða útivellir eru skemmtilegastir. Auðvitað er þetta persónulegt og margt sem spilar inní eins og árangur á viðkomandi velli, stemmning o.s.frv. Ég ætla að raða völlum deildarinnar niður í sæti

 

11 sæti-Valbjarnarvöllur.

Ég set hann í neðsta sæti aðallega vegna þess að völlurinn sjálfur er slæmur. Að vísu er hann með betra móti í ár og sætin setja meiri svip á stúkuna. Svo spilar náttúrlega inní að ég man ekki eftir að hafa unnið leik þarna fyrr en auðvitað núna í fyrstu umferð og þá með Fjölni. Einnig er pirrandi hvað búningsklefinn er langt frá vellinum.

10. sæti-Laugardalsvöllur.

Aðalástæða þess að sjálfur þjóðarleikvangurinn nær ekki hærra í mínum bókum er sú að það næst svo lítil stemmning á vellinum. 1000 manns virka eins og 10 manns í 1500 manna stúku því fólkið hverfur algjörlega í sætafjöldann. Völlurinn er samt alltaf í toppstandi og sjálfsagt væri völlurinn í toppsætinu ef hann væri fullur í hverjum leik

9. sæti-Keflavíkurvöllur

Það sem er að Keflavíkurvellinum er að hann er staddur í Keflavík. Svo hefur maður nú tapa einhverjum leikjum þarna og það er ekkert leiðinlegra en fyrir Grindvíking að tapa á móti Keflavík.

8-7 sæti-Kópavogsvöllur

Ég vil byrja á því að taka það fram að ég hef ekki spilað á vellinum eftir að nýja stúkan kom. Áður fyrr voru þeir með litla stúku sem var yfirleitt tóm. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar hjá þeim Kópavogsbúum síðan ég spilaði síðast en ég er að taka mið á minni reynslu.

6. sæti-Akranesvöllur.

Á Akranesi eru allar knattspyrnuaðstæður til fyrirmyndar og mörg lið hér í Reykjavík gætu litið upp til þeirra.  Ég hef einu sinni í 13 heimsóknum mínum þangað unnið þannig að minningar mínar eru ekki góðar þaðan. Svo er yfirleitt svolítið langt fyrir Grindvíkinga að fara þangað þannig að þeir hafa nú ekki fjölmennt þangað í gegnum árin.

5.sæti-Fylkisvöllur.

Maður hefur nú nokkrum sinnum náð skemmtilegum úrslitum þar og yfirleitt um hörkuleiki að ræða. Aðstæður eru fínar og oftast þétt setið og ágætis stemmari á leikjum sem ég hef spilað þarna. Svo bjóða þeir appelsínugulu alltaf uppá hörkuhlaðborð eftir leiki.  

4.sæti-FH völlur

Síðustu ár hefur verið gaman að spila í Hafnarfirði ef að undan er tekið 8-0 tap þar fyrir einum fjórum árum síðan. Reyndar höfum við Grindvíkingar ekki riðið feitum hesti þaðan en stemmningin hefur bara verið þannig að það er alltaf gaman að fara þangað. Svo hefur ferðalagið ekki verið lengra en 25mín fyrir okkur úr Grindavík þannig að það er plús. Reyndar kinnbeinsbrotnaði ég þar síðast þegar að ég spilaði þarna þannig að það er eiginlega spurning um að færa völlinn aðeins neðar í töfluna....

3.sæti-Hlíðarendi (Vodafone völlur)

Ég hef unnið nokkuð oft á þessum velli og það sem meira er þá hef ég líka skorað nokkur mörkin þarna líka. Árangur minn er semsagt það sem er að rífa Hlíðarendann upp töfluna. Völlurinn hefur alltaf verið góður og fínn stemmari. Ég spilaði svo opnunarleik nú á dögunum og það var bara frábært þannig að það eru fleiri góðar minningar þaðan en slæmar.

2.sæti-Frostaskjól

Manni hlakkar alltaf til að spila þarna. Það er alltaf frábær stemmning þarna og fullt af fólki. Eins furðulegt og það hljómar þá höfum við í Grindavík yfirleitt spilað vel þarna og náð frábærum úrslitum. Ég man í fljótu bragði eftir einhverjum mörkum sem maður hefur sett þarna og því situr þessi forni völlur örugglega í örðu sæti.

1.sæti-Grindavíkurvöllur.

Auðvitað er þessi völlur í lang fyrsta sæti hjá mér. Ég er með mikið mun fleiri sigurleiki þar heldur en tap og ef 30 og eitthvað mörkum sem karlinn hefur potað inn í efstu deild eru klárlega 20 og eitthvað á þessum velli. Ekki skemmir fyrir að við Fjölnismenn fórum þaðan með 3 stig nú á dögunum

 

Óli Stefán.......sem setur Akureyrarvöll ofarlega á lista yfir skemmtilega útivelli 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Torfi

Það sem er að Keflavíkurvellinum er að hann er staddur í Keflavík Priceless

Gísli Torfi, 10.6.2008 kl. 07:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband