Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Fyrsti heimaleikur okkar

Í kvöld spilum við okkar fyrsta heimaleik við KR. Stemmningin hér í Grafarvogi er engu lík í dag og virðast margir meðvitaðir um hvað það er stórt mál fyrir Fjölni að spila á meðal þeirra bestu. Ég verð að viðurkenna að völlurinn lítur ansi hreint vel út og það á að geta myndast brjáluð stemmning þarna. Völlurinn tekur ekki nema 500 manns í sæti en svo eru bekkir sem að einhver 2-300 geta tyllt sér á. Restin verður því bara í gömlu góðu grasbrekkunni sem að menn kvörtuðu nú ekki yfir fyrir ekki svo löngu síðan, við erum bara orðin of góðu vön vil ég meina.

KR er með hörku lið sem að ég spái efstu þremur sætum í haust. Þeir eru vel mannaðir í öllum stöðum og með fína breidd líka. Ég persónulega sakna þess að Grétar Ólafur Hjartarson spili ekki því hann er einn af þessum leikmönnum sem mér finnst virkilega gaman að spila á móti. Maður ætti í raun að vera kátur að hann spili ekki því drengurinn er djöflinum betri en við höfum bara tekið svo oft á því í gegnum tíðina og ég veit að honum finnst ekkert skemmtilegra en að pirra mig. Það verður hins vegar verðugt verkefni að taka á nýjasta syni þeirra röndótta honum Guðjóni Baldvins.

Ég vissi alveg að Fjölnir ætti flotta stuðningsmenn og að stuðningsmannaklúbburinn Kári væri frábær en í síðasta leik varð ég orðlaus. Þetta hef ég að ég held bara aldrei orðið vitni að því að þeir komu syngjandi korteri fyrir leik, sungu allan tímann og fóru í burt syngjandi. Svona vill maður hafa þetta því að þetta gefur leikmönnum þetta auka sem að þarf að hafa í svona deild.

Við strákarnir erum algerlega á jörðinni fyrir þennan stórleik og vitum það alveg að í dag er annar dagur en á laugardaginn. Andstæðingar okkar eru einn stærsti klúbbur landsins og til að leggja þá þurfum við að eiga okkar allra besta dag. Það eitt er víst að við höldum áfram að skemmta okkur og mætum í dag til að spila okkar fótbolta

 

Óli Stefán.......sem er að fara á Salatbarinn í hádeginu 


Svar okkar við Sibba

Ekki margt fyrir löngu þá skrifaði ég grein um Sibba sem gerði helvít flott myndband um vonir og drauma í körfunni í Grindavík. Auðvitað eigum við einn snilling sem auðvitað var búinn að útbúa myndband í svipuðum gæðaflokki og auðvitað heitir maðurinn Davíð Þór Rúnarsson. Í þessu myndbandi er gert grín af Eyjólfi Sverrissyni þegar hann var skipper hjá landsliðinu og pressan farin að láta finna fyrir sér. Meðal leikara eru Dabbi sem er í aðalhlutveki og gott ef Doddi markmaður sé ekki með stórt aukahlutverk ásamt Simma.

 

Óli Stefán......sem getur ekki beðið mikið lengur eftir próflokum 


Þá er loksins komið að því

Í dag spilar Fjölnir sinn fyrsta leik í efstu deild þegar að við mætum Þrótti úr Reykjavík á Valbjarnarvelli kl 14.00. Leikir þessara liða hafa víst verið stórbrotnir í gegnum tíðina og báðir leikir síðasta árs frábær skemmtun með mikilli dramatík. Stemmningin hér í Grafarvogi er mikil og má búast við fjölmenni í Laugardalnum.

Fjölnir sem er án efa yngsta lið deildarinnar hefur náð eftirteknaverðum árangri síðustu ár og eru núna að uppskera laun erfiðisins og spila á stóra sviðinu í ár. Það er stórkostlegur heiður að fá að taka þátt í þessum merka áfanga og þar með skrifa nafn mitt í sögubækur Fjölnis. Mín spá er að innan fárra ára verður þessi klúbbur risi íslenskra knattspyrnu. Í ár er fyrsta skrefið tekið í þá átt og eru væntingar því stilltar í hóf. Að halda sér meðal þeirra bestu er það sem menn ætla sér og allt umfram það verður bónus.

Ég vona að Grafarvogsbúar taki sem flestir þátt í þessu með okkur því það er ljóst að leikmenn, þjálfarar og stjórn ætla að skemmta sér vel í sumar og eins og áður sagði byrja herlegheitin í dag kl 14.00

 

Óli Stefán.....sem er búinn að pússa markaskóna  


Fyrstudeildarfélagið

Í fyrra þegar að við vorum í fyrstu deildinni þá fengum við ekkert svakalega umfjöllun fjölmiðla, skiljanlega kannski. En þó voru þrír heimsmeistarar sem að fylgdust betur með henni en góðu hófi gegndi. Þessir þrír kölluðu sig Fyrstudeildarfélagið og héldu úti myndar netsíðu þar sem fyrsta deildin var mál málanna. Þessir félagar heita Björgvin a.k.a Bo - Róbert a.k.a Bobby graði - KA maðurinn a.k.a KA maðurinn. Þeir fóru vallanna á milli og héldu síðan video fundi þar sem þeir spáðu í spilin og völdu meðal annars lið fyrri og seinni umferða.

Hérna má sjá val þeirra á fyrri umferð fyrstu deildar í fyrra

 

Í ár eru þeir svo byrjaðir að spá í fyrstu deildina og halda þeir úti síðu sem má sjá hér . Það eru kannski margir Fjölnismenn sem kannast við drenginn í miðjunni en þó að hann sé kallaður KA maðurinn er hann gallharður Fjölnismaður og verður mættur á fyrsta leik okkar við Þrótt á laugardaginn

Óli Stefán......sem að er ekkert hoppandi ánægður með það að Ásmundur sé kominn með ísbaðið fræga 


Djö getur fótboltinn verið skemmtilegur

Eitthvað segir mér að ég fái skot á mig á næstu æfingu vegna dómarans sem hefur syrpuna hér að neðan.

 

Óli Stefán.....sem grætur það þurrum tárum þó að Valbjarnarvöllurinn verið ekki tilbúinn í fyrsta leik og spilað verði á Laugardalsvellinum


Fyrsta grasæfingin

Mikið svakalega er maður nú ánægður að komast loksins á gras. Ég verð nú bara að segja að grassvæðið hér í Grafarvoginum kemur ljómandi undan vetri og er það grænt og fagurt. Æfingin sem slík var helvíti fín og var boðið uppá klassíska reitur og spil a.k.a Kristó spes æfingu. Að vísu tapaði mitt lið eftir að hafa verið með yfirburða stöðu en eins og sannur íþróttamaður þá tekur maður því bara og einbeitir sér að næstu æfingu.

Klefa aðstæður eru alveg hreint ljómandi og það er nánast allt til alls þar. Fötin eru þvegin af okkur, að vísu fáum við þau yfirleitt vel rök til baka en það er ekki hægt að búast við öðru þar sem Gunni Már sér um þvottinn. Þarna eru alvöru græjur og meira að segja sjónvarp og dvd spilari. Það eina sem vantar þarna inn til að gera klefann fullkominn er ískápur með drykkjum í og kaffivél. Fyrir mig er kaffivélin nauðsynlegri því ég þarf 1-2 kaffibolla í kroppinn fyrir allar æfingar og leiki ef að vel á að vera.

Nú eru fimm dagar í mót og allt að verða klárt. Ási er meira að segja búinn að fá Gylfa Orra til að taka fyrirlestur um rangstæður því það er lágmark að leikmenn í efstu deild viti út á hvað þessi annars ágæta regla snýst um.

 

Óli Stefán.....sem er nákvæmlega ekkert pirraður yfir því að hafa tapað á rangstöðumarki á æfingu 

 


Sýnd veiði en alls ekki gefin

Mikið er alltaf gaman að skoða spá sumarsins hjá hinum ýmsu miðlum. Fotbolti.net og Fréttablaðið virðast vera nokkuð sammála um hvaða lið verða í botnbaráttunni í sumar. Þar nefna báðir miðlarnir Grindavík í neðsta sæti síðan koma Fjölnir, Þróttur og HK reyndar ekki í sömu röð en aftur eru þeir sammála um að Keflavík verði svo aðeins fyrir ofan þessi fjögur lið.

Ég hef alltaf tekið svona svona mark á þessum spám en auðvitað er ekkert óeðlilegt við það að nýliðunum sé spáð neðarlega ásamt þeim liðum sem kannski hafa ekki verið að ríða feitum hesti í leikjum vetrarins. 

Nú er endaspretturinn hafinn og ekki nema vika í mót. Við Fjölnismenn spilum við Þrótt í fyrstu umferð á Valbjarnarvelli. Það segir sig sjálft að það verður hart barist um stigin 3 í svona nýliðaslag. Þrótturum eru spáð svipuðu gengi og Fjölni en Fjölnir sigraði Þrótt í báðum leikjum síðasta sumars. Við eigum svo KR heima í annarri umferð og svo mekka fótboltans, Grindavík, í þriðju umferð.

Mínir fyrrum félagar í Grindavík ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í fyrstu þremur umferðunum. Í fyrstu umferð fara þeir í Frostaskjólið og spila við KR og nokkrum dögum seinna fara þeir svo á Hlíðarenda að spila við Íslandsmeistara Vals. Að lokum spila þeir svo við strákana hans Ása úr Grafarvoginum í Grindavík. 

 

Óli Stefán.....sem er byrjaður í prófum


« Fyrri síða

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband