Færsluflokkur: Bloggar

Jarðskjálftar

Mér líður alltaf afar illa þegar að þessir blessaðir jarðskjálftar ríða yfir. Í dag var ég heima að vaska upp þegar að allt fór á fullt. Myndir á veggjum fóru af stað og mikil læti í öllu húsinu. Ekki veit ég hvað hann mældist hér en hann virkaði ansi öflugur. Allavega það öflugur að ég stökk undir dyrakarminn á svölunum.

Þegar að skjálftinn stóri kom árið 2000 minnir mig þá átti ég heima á annarri hæð í blokkaríbúð í Grindavík. Þá sveiflaðist öll blokkin og munir hrundu af veggjunum. Síðan þá hefur manni alltaf liðið illa í þessum skjálftum og bara svona lítil atvik minnir mann á hvað við erum ótrúlega lítil gagnvart náttúrunni. 

 

Óli Stefán.....sem að var að pissa eitt sinn þegar að það kom skjálfti sem að gerði það að verkum að eftir skjálftann þurftu sumir að fara á niður á kné og þvo klósettgólfið í kringum skálina.


mbl.is Jarðskjálfti við Ingólfsfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

A la Tommi Leifs

Tommi Leifs liðsfélagi minn er nokkuð lúmskur á brandarana. Fyrir KR leikinn um daginn skellti hann þessum fram

 Hey strákar! Ef að fyrirtækin Apple og sjónvarpstöðin Sýn myndu sameinast, hvað væri þá nafnið á því fyrirtæki??

Svar Appelsín

 

Óli Stefán......sem trúir því varla að Tómas hafi fattað þennan algjörlega sjálfur


Þvílíkur leikur í gær

Mikið svakalega var ég ánægður fyrir hönd minna fyrrum félaga í gær. Þar duttu þeir aldeilis í gírinn og slátruðu Blikum 3-6. Ætli maður viti það nú ekki manna best að þegar að Grindavík hittir á svona leiki er fátt sem getur stoppað þá. Það voru allir að spila fantaleik og þó að hafi borið mest á senternum, Scotty og Andra og þeir að spila frábærlega þá var ég ótrúlega ánægður með Húna Hauks. Sá var að spila eins og sá sem valdið hefur og gaf hann strákum sem hann gæti hreinlega verið pabbi ekkert eftir.

Næsta verkefni okkar er einmitt Breiðablik og er ljóst að þeir mæta brjálaðir í leikinn. Okkar lið er einnig sært eftir að hafa misst úr höndunum allavega stig á móti Val. Verður því um hörkuleik að ræða þar sem við fáum okkar annan heimaleik í sumar en við erum búnir með þrjá útileiki í fyrstu fjórum umferðunum sem gerir árangur okkar kannski enn betri í fyrstu leikjunum.

Óli Stefán......sem er símalaus í augnablikinu en síminn gaf upp öndina í gær 


Eigum ekki möguleika

 Ég hef nú aldrei verið mikill aðdáandi Eurovision keppninnar. Í kvöld horfði ég hins vegar á keppnina því ég átti ekki annarra kosta völ. Ég var staddur í stúdentaveislu þar sem búið var að koma upp einum fjórum sjónvarpstækjum og græjurnar stilltar í botn.

Ég sjálfur heillaðist af einu lagi en það var lag Frakka og einnig ákvað ég að sína Dabba Rú stuðning í verki og fylgjast með Spáni en hvorugt þessara laga gerðu einhverjar rósir.

Mér fannst nafni minn og Regína standa sig og eru vel að 14.sætinu komin. Þessi keppni er náttúrlega fyrir löngu komin út í eitthvað allt allt annað en sönglagakeppni því það er alveg sama hversu léleg lögin eru nágrannaþjóðirnar velja alltaf hvort annað. Til að mynda vissi Sigmar þulur, sem mér finnst by the way ótrúlega góður, í 90 % tilfella hvaða land fengi 12 stig. 

Það á bara að skipa þessari keppni niður í austur og vestur og þá fyrst eigum við möguleika en á meðan austantjaldsþjóðirnar eru með þá getum við gleymt því að vinna þessa keppni, sem er svosem í góðu lagi mín vegna.

 

Óli Stefán........grætur það að fá aldrei til baka þessa tvo klukkutíma sem fór í að horfa á þennan skrípaleik 


Opnunarleikur

Við eigum næsta leika okkar á nýjum og glæsilegum velli þeirra Valsmanna. Mér skilst að það verði heljarinnar hátíð fyrir leikinn og leikurinn sjálfur svo hápunkturinn. Valur hefur ekki startað mótið eins og þeir hefðu kosið og koma því sjálfsagt eins og grenjandi ljón í leikinn og ætla sér að sprengja þessa Fjölnisblöðru strax. Auðvitað ætlum við að selja okkur dýrt og láta þá rauðu hafa aðeins fyrir hlutunum. Við erum núna að fara í okkar þriðja útileik af fjórum og væri auðvitað glæsilegt að komast taplausir í gegnum þá. Við höfum bara svo svakalega gaman af því sem við erum að gera og njótum augnabliksins í botn.

Ef að ég þekki Káramenn rétt, sem ég tel mig gera núorðið, þá eiga þeir eftir að standa sig eins og þeir hafa gert í öllum leikjum okkar hingað til. Þeir eiga s eftir að eigna sér stúkuna rauðu og láta söngvana óma um Öskjuhlíðina.

Ekki það að manni hlakki óhemju mikið til leiksinsþá bíður maður spenntur eftir orði dagsins hjá Kristó. Fyrstu viðtalsorðin voru "moldvarpa" og "gormur" og mér skilst að það hafi bara verið upphitun því næsta orð á að vera krefjandi 

Óli Stefán......sem vonar að Frikki sæti eigi eftir að standa sig annað kvöld í Belgrad 


Erfitt var það

Það er ekki laust við að tilfinningarnar hafi verið blendnar í gær þegar maður fór á sinn gamla heimavöll að takast á við gömlu félagana og stuðningsmenn. Við gerðum okkur svo mikið grein fyrir því hvað Grindavík er með gott lið og komum klárlega til að verja stigið. Reyndar erum við með þannig leikmenn að þeir eru alltaf líklegir að refsa og sú varð raunin i gær.

Ég get ekki sest niður og skrifað um leikinn án þess að minnast á frábæra stuðningsmenn Fjölnis. Það er engum blöðum um það að flétta að þeir hafa algjörlega stolið senunni í sumar. Í gær glumdi algjörlega í stúkunni þegar þeir sungu hvert snilldarlagið á fætur öðru. Það er ekkert nema frábært að spila fyrir framan svona stuðningsmenn

Ég er búinn að fá góðfúslegt leyfi frá Kristó til að upplýsa menn um pínu viðtalshúmor sem er í gangi hjá okkur Fjölnismönnum. Málið er að fyrir hvern leik kemur Kristó með orð dagsins sem að leikmenn verða svo að koma frá sér í sjónvarpsviðtali. Þetta byrjaði á móti KR þegar að herra Fjölnir Gunnar Már fór í sjónvarpið í viðtal. Hann fékk orðið moldvarpa sem hann skilaði svo frá sér með stakri snilld þegar var verið að ræða um teigana á Fjölnisvellinum. Í gær tilkynnti svo Kristó að orð dagsins væri gormur. Það lenti að þessu sinni á mér að skila því frá mér og talaði ég um að Grindjánarnir væru stórhættulegir inn í teignum því þetta væru svoddan djöfulsins gormar. 

 

Óli Stefán.....sem vonar að sínir fyrrum félagar spýti nú í lófana og taki Breiðablik í næstu umferð 


Stuðningsmannaklúbburinn Kári

Já það er alveg óhætt að segja það að þeir hafi slegið í gegn þessi hópur sem gengur undir nafninu Kári. Í fyrra var þetta 15 manna hópur sem að lét vel í sér heyra sælla minninga en þegar að við í Grindavík komum hingað töluðum við mikið um hvað örfáir geta gert mikið. Nú hefur þessi hópur stækkað og dafnað undir öruggri stjórn þeirra sem voru í fyrra og setja mark sitt á leiki. Í síðasta leik sungu þeir KR miðjuna í kaf. Auðvitað getur verið að þeir hafi dansað á línunni í þeim leik en þeir fóru alls ekki yfir hana enda flestir þessara drengja öðlingspiltar. Ég vona að þeir fjölmenni suður í kvöld og láti vel í sér heyra á góðu nótunum náttúrlega því þetta verður án efa erfiðasta verkefni okkar hingað til

Stuðningmannaklúbburinn KÁRI 

 

Óli Stefán......sem er kominn með spennuhnút í magann 


Hænuskref í átt að takmarki okkar

Ætli maður verði ekki að byrja þessa færslu á því að ræða aðeins um síðasta leik okkar Fjölnismanna. Við vorum þar að spila við stórlið KR og eftir mikinn barning þá tókst okkur að leggja þá að velli 2-1 eftir mjög svo dramatískar mínútur í lokin. Gunnar Már a.k.a herra Fjölnir tók þá víti sem Stjáni Hauks hafði náð í og skoraði af mikilli yfirvegun. 30 sek seinna flautaði dómarinn leikinn af við mikinn fögnuð Grafarvogsbúa. Ekki er endilega hægt að segja að við höfum átt sigurinn 100% skilið en ef menn standa sína plikt þá er alltaf möguleiki á þessu. KR átti tvö sláarskot á sömu mínútunni og svo einhver skot fyrir utan. Annað áttu þeir ekki þó að þeir hafi þjarmað að okkur. Við áttum t.d eitt sláarskot þannig að munurinn var kannski ekki eins mikill og menn vilja meina en jafntefli hefði kannski verið sanngjarnari úrslit allavega. 

 Glæslileg sjón

 

 Stuðningur Káramanna og annarra Fjölnismanna var frábær eins og í fyrsta leiknum. Mér skilst að tæplega 3000 manns hafi verið á vellinum sem er náttúrlega met. Tommi Leifs sagði mér t.d að á svipuðum tíma í fyrra þegar að Fjölnir spilaði við Njarðvík á þessum velli þá hafi verið 8 mættir að horfa. Framfarirnar á skömmum tíma því gríðarlegar. Fjölnir er náttúrlega á sínu fyrsta ári í efstu deild þannig að skiljanlega er aðstaðan ekki alveg uppá 10 ennþá en það kemur með tímanum og á meðan verður fólk bara að sýna þessu skilning. 

Næsti leikur er náttúrlega mjög sérstakur fyrir mig og Eyþór Atla. Þarna mætum við á æskuslóðir að spila við Grindavík. Þeir hafa ekki byrjað eins vel og þeir hefðu viljað en hafa ber í huga að þeir spiluðu við KR úti og Val úti í fyrstu leikjunum. Ekki margir sem reiknuðu með stigum þar en ég held að liðið hafi komið mörgum í opna skjöldu með góðri spilamennsku. Þeir verða algjörlega brjálaðir í þessum leik og er ég á fullu að búa menn undir stríð. Hvað sem öðru líður þá verður þetta gaman og vona ég að sem flestir láti sjá sig.

 

Óli Stefán......sem er stoltur af Rikkanum sem að gifti sig í gær. Drengurinn er núna í góðum höndum á gallhörðum Arsenalaðdáenda


Fyrsti heimaleikur okkar

Í kvöld spilum við okkar fyrsta heimaleik við KR. Stemmningin hér í Grafarvogi er engu lík í dag og virðast margir meðvitaðir um hvað það er stórt mál fyrir Fjölni að spila á meðal þeirra bestu. Ég verð að viðurkenna að völlurinn lítur ansi hreint vel út og það á að geta myndast brjáluð stemmning þarna. Völlurinn tekur ekki nema 500 manns í sæti en svo eru bekkir sem að einhver 2-300 geta tyllt sér á. Restin verður því bara í gömlu góðu grasbrekkunni sem að menn kvörtuðu nú ekki yfir fyrir ekki svo löngu síðan, við erum bara orðin of góðu vön vil ég meina.

KR er með hörku lið sem að ég spái efstu þremur sætum í haust. Þeir eru vel mannaðir í öllum stöðum og með fína breidd líka. Ég persónulega sakna þess að Grétar Ólafur Hjartarson spili ekki því hann er einn af þessum leikmönnum sem mér finnst virkilega gaman að spila á móti. Maður ætti í raun að vera kátur að hann spili ekki því drengurinn er djöflinum betri en við höfum bara tekið svo oft á því í gegnum tíðina og ég veit að honum finnst ekkert skemmtilegra en að pirra mig. Það verður hins vegar verðugt verkefni að taka á nýjasta syni þeirra röndótta honum Guðjóni Baldvins.

Ég vissi alveg að Fjölnir ætti flotta stuðningsmenn og að stuðningsmannaklúbburinn Kári væri frábær en í síðasta leik varð ég orðlaus. Þetta hef ég að ég held bara aldrei orðið vitni að því að þeir komu syngjandi korteri fyrir leik, sungu allan tímann og fóru í burt syngjandi. Svona vill maður hafa þetta því að þetta gefur leikmönnum þetta auka sem að þarf að hafa í svona deild.

Við strákarnir erum algerlega á jörðinni fyrir þennan stórleik og vitum það alveg að í dag er annar dagur en á laugardaginn. Andstæðingar okkar eru einn stærsti klúbbur landsins og til að leggja þá þurfum við að eiga okkar allra besta dag. Það eitt er víst að við höldum áfram að skemmta okkur og mætum í dag til að spila okkar fótbolta

 

Óli Stefán.......sem er að fara á Salatbarinn í hádeginu 


Svar okkar við Sibba

Ekki margt fyrir löngu þá skrifaði ég grein um Sibba sem gerði helvít flott myndband um vonir og drauma í körfunni í Grindavík. Auðvitað eigum við einn snilling sem auðvitað var búinn að útbúa myndband í svipuðum gæðaflokki og auðvitað heitir maðurinn Davíð Þór Rúnarsson. Í þessu myndbandi er gert grín af Eyjólfi Sverrissyni þegar hann var skipper hjá landsliðinu og pressan farin að láta finna fyrir sér. Meðal leikara eru Dabbi sem er í aðalhlutveki og gott ef Doddi markmaður sé ekki með stórt aukahlutverk ásamt Simma.

 

Óli Stefán......sem getur ekki beðið mikið lengur eftir próflokum 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband