Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Alaska

Ég verð alveg að viðurkenna það að þó að ég hafi ákveðið fyrir fjórum árum að flytja í höfuðborgina þá koma nú alltaf tímar sem maður saknar þess að búa í Grindavík, sérstaklega á þetta við á morgnana þegar að maður er að berjast í gegnum umferð dauðans í 20-30 mín. Í Grindavík tók mann um 3 min að fara í vinnu 3 min að fara á æfingu 2 min að fara í búðinu og 5 min að labba á Lukku Láka sem er barinn okkar. Í Reykavík tekur mig ekki langan tíma að fara á æfingu en að fara í skólann tekur þessar 20-30 min á morgnana þegar að umferðin, sem að ég hata, er sem mest en það fyndna er að ég er ekki nema 10 min heim aftur.

Í gær verð ég svo að viðurkenna til baka að ég saknaði þess ekki að búa í ALASKA. Ég hef bara aldrei séð svona mikinn snjó á þeim 28 árum sem að ég bjó þarna. Ég er jafnvel viss um að það hefur ekki snjóað svona mikið samanlagt á þessum 28 árum. Þarna voru menn alveg klukkutíma að koma sér í vinnuna ef ekki lengur. Ég er nokkuð viss um að jafnvel meistari Jankó hefur lent í erfiðleikum með að finna stað til að æfa á. Nú hefur getur Grindavík ekki bara státað sig af mesta vind landsins heldur núna eiga þeir mesta sjó landsins og ef að þessu er blandað saman þá er nú útlitið ekki gott.

Óli Stefán......sem að mundi hvaða dag vikunar taka Alaska fram yfir Keflavík. Er það ekki Rikki?


Margur er knár þótt hann sé smár

Núna í hádeginu hitti ég dreng sem að ég kannast vel við á Nings. Drengur þessi heitir Sigurður og er úr Njarðvík. Við spiluðum mikið á móti hvor öðrum í körfubolta hér áður fyrr þegar að maður gerði garðinn frægan í þeirri snilldar íþróttagrein. Ég man að Siggi var og er nú ekki hár í loftinu en hann var djöflinum betri og ég ,sem fór nú helst áfram í körfunni á góðum varnarleik því lítið gat ég sóknarlega, var einmitt oft látinn honum til höfuðs. Oft voru slagsmálin mikil og rimmurnar okkar á milli harðar.  Ég lenti svo á góðu spjalli við hann núna á milli þess sem við hámuðum í okkur núðlurétt númer 68 á seðlinum. Siggi sagði mér að hann hefði ekkert fylgt körfunni eftir vegna erfiðra meiðsla sem hann lenti í en í stað körfunnar fór hann í lóðin og hefur verið í þeim síðan. Í dag er ekki hægt að segja að Siggi sé lítill þó að hann sé nokkurnveginn svipaður að hæð. Drengurinn er heljarmenni að vexti og er einmitt að fara í vaxtarræktar keppni núna um páskana. Hann var að tala um hvað leggja þyrfti á sig til að vera klár í slaginn um páskana en til þess þarf maður að ganga í 12 vikna geðveiki. Matarprógrammið er alveg ákveðið í þessar 12 vikur þannig að það er varla fitugramm á þessum fuglum þegar á svið er komið í þessari keppni. Eftir að Siggi hélt sína leið sat ég eftir í pælingum. Úr þessum pælingum komst ég að því að ég þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af þessum 4 kg sem ég er að berjast við að losna. Ég bara tek þriggja vikna geðveiki á þetta og þá heyra þessi kg sögunni til. Reyndar þarf oft ekki annað en að fara yfir mataræðið og litlar breytingar á því skila fljótum og góðum árangri.

 

Óli Stefán.....sem gæti hafa misst nokkur grömmin í ælukastinu sem hann tók í gær. 


Næturvaktin

Ég tók um helgina þrjár næturvaktir og kláraði síðustu vaktina í morgun (er ekki að tala um þættina vinsælu) . Í ljósi þess að hafa vakað allar nætur síðustu þrjá sólarhringa og sofið á daginn þá kemur það sjálfsagt ekkert á óvart að ég er ekki sofnaður núna kl 01.45. Menn hefðu nú getað haldið að það væri nú lítið mál að sofna þegar að vaktinni líkur en það er ekkert sjálfgefið. Ég sofnaði ekki fyrr um ellefu í morgun og vaknaði svo um fjögur í dag. Næturvakt er samt ekki fyrir hvern sem er og ég viðurkenni alveg að ég er ekki viss um að ég mundi ráða við það að taka mikið fleiri en þrjár í röð. Það að sofna í myrkri og vakna svo aftur í myrkri er ekkert grín.

Í kvöld var kosið um það hvert ætti að fara í æfingaferð en það komu þrír staðir til greina, Þýskaland, Portúgal og Tyrkland. Þeir strákarnir þekkja náttúrlega ekkert annað en sólina í Portúgal og fór það því þannig að farið verður þangað enn eitt árið. Ég hef nú farið nokkrar ferðirnar á mínum tíma og meðal annars farið fjórum sinnum til Þýskalands þrisvar sinnum á Portúgal og tvisvar Tyrkland. Þessir staðir eru allir góðir og hafa bæði kosti og galla. Ég held að kosningin hafi farið þannig að 11 kusu Portúgal 9 kusu Þýskaland og að lokum kusu tveir Tyrkland og getið þið tvisvar hver átti annað atkvæðið þar.

Á æfingu inní Egilshöll tókum við nokkrar sóknarfærslur ásamt því að spila. Það sem náði athygli minni óskiptri var hvernig hinn smávaxni þjálfari okkar Ásmundur Arnarsson skipti í lið. Haldið þið að hann hafi ekki raðað liðinu í röð eftir stærð og skipt þannig að risarnir voru saman á móti okkur sem eru í eðlilegri stærð. Ég notaði afsökun fyrir tapi á þessari æfingu sem ég hef ekki notað síðan í 6.flokki "þeir voru líka miklu stærri en við" 

 

Óli Stefán.....sem er nokkurn veginn sama hvert farið verður svo lengi sem það sé golfvöllur í næsta nágreni


Boltasápuópera

Nú er það staðfest að við Fjölnis menn spilum við ÍBV þann 19.jan. Ég tek því fagnandi því að vinur minn hann Albert Sævarsson er að spila með þeim og hef ég aldrei síðan að Albert fór frá Grindavík á sínum tíma tapað fyrir honum.

Ég er með svolítinn kvíðasting fyrir æfinguna í kvöld því að eftir fótboltann förum við í lyftingarnar. Ekki það að mér kvíði fyrir lyftingunum sjálfum heldur sú staðreynd að mér tókst að skemma prógrammið mitt í annað skipti á viku tíma og þarf því að láta Ása prenta út enn eitt fyrir mig. Ég geymi þetta prógramm sem er á A4 blaði alltaf í vasanum á æfingabuxunum og klikka síðan á því að taka það þaðan fyrir þvottinn en þessi blöð eru víst ekki gerð til að þola þvott á 40 gráðum.

Síðan að ég byrjaði að æfa aftur eftir síðasta tímabil hef ég verið að fá smá verki neðst í magavöðvann hjá mér. Þessi verkur hefur komið og farið en pirrað mig aðeins síðustu viku. Ég ráðfærði mig að sjálfsögðu við Ása þjálfara sem er sjúkraþjálfari líka. Hann benti mér á að kaupa mér nárahitabuxur sem að flestir knattspyrnumenn þekkja svosem. Aldrei hefði ég hins vegar getað giskað á að svona buxur kosta 9200 krónur. Ég meina þær eru ekki úr hvítagulli eða neitt svoleiðis heldur eru þetta bara venjulegar nárabuxur takk fyrir. Ég gæti t.d fengið ágætis gallabuxur á svipuðu verði og þær eru meira en helmingi síðari.

 

Óli Stefán......sem að lítur björtum augum á þessa skólaönn 


Bíómenning á Íslandi

Ég hef alla tíð verið mikill áhugamaður um kvikmyndir og þess vegna farið reglulega í kvikmyndahús borgarinnar. Þegar að ég fékk bílpróf seint á síðustu öld gerði maður sér ferðir á öllum tímum í bæinn alla leið úr Grindavík til þess að komast í bíó. Þá voru sýningar á oddatímum þ.e 17-19-21 og 23 á kvöldin. Oftar en ekki fórum við á síðustu sýningar kvöldsins sem voru kannski búnar um eitt þannig að heim var komið um 2-3 um nótt. Þetta þótti ekki mikið mál og maður lagði þetta á sig því áhuginn var þetta mikill um kvikmyndir.

Í dag er finnst mér verið að drepa þessa menningu niður. Í fyrsta lagi er verðið bara rugl því miðinn kostar litlar 950kr. Í öðru lagi þá er óþolandi að borga þetta verð fyrir endalausar auglýsingar. Ég er ekki að meina auglýsingar úr öðrum myndum heldur er verið að auglýsa dömubindi og þessháttar kjaftæði. Síðast en alls ekki síst eru þessi hlé á myndunum óþolandi. Reyndar hafa þau alltaf verið en mér finnst þau alltaf verið að lengjast og þá gagngert til að troða á okkur fleiri auglýsingum.

Ég hef eins og áður sagði farið í bíó síðan ég var pjakkur og ef ég ætti að reikna hvað ég hef farið með mikinn pening i þessa iðju mína þá gæti ég sett einfalt dæmi upp svona. Ég hef pottþétt farið á 100 sýningar og miðinn hefur hækkað úr 350kr í 950kr þannig að meðaltalið er svona um 650 krónur. 650x100 eru 65þús kr. Í þessu einfalda dæmi er ekki reiknað poppið og kókið sem að örugglega skiptir tugi þúsunda og ekki heldur bensínið á bílinn. 

Ég er samt sem áður ekki hættur að fara í bíó en hef snarminnkað ferðirnar og nú fer ég nánast bara í bíó á þriðjudögum og borga með spron korti og fæ því miðann á 2 fyrir 1 

 

Óli Stefán......sem að man það langt til baka að hafa farið á Rocky 4 í bíó 


Ísl-enski boltinn

Fyrsta æfing ársins var í Egilshöllinni í gærkvöldi. Auðvitað var lítið annað að gera en að taka Kristó spesial en það er nafn yfir reit og spil æfingu hjá okkur. Í spilinu var stillt upp í eldri yngri þar sem eldri náðu heldur betur að kvitta fyrir mjög svo óvænt tap nú rétt fyrir jól. Leikurinn endaði 9-0 fyrir eldri þar sem gamla kempan úr Breiðablik Kristófer Sigurgeirsson fór hamförum í vinstri bakverði. Alveg er ég viss um að ef drengurinn hefði lagt þessa stöðu fyrir sig þegar að kappinn var upp á sitt besta hefði hann örugglega komist lengra í boltanum, jafnvel alla leið í HK. 

Í enska er allt flott að frétta því að mínir menn fóru þægilega í gegnum síðustu umferð í bikarnum þegar við unnum Burnley á útivelli og það með stráklingana hans Wengers. Alveg finnst mér magnað hvað hann treystir litlu guttunum í þessum keppnum og hefur alltaf gert. Núna er líka verði að uppskera því að þessir strákar eru margir hverjir að verða aðalliðsmenn og hópurinn því alltaf að styrkjast. Arsenal er líka eitt af fáum liðum sem er ekki að eyða óþarfa pening í einhverja skyndilausn núna í janúar. Í gær var dregið í bikarnum og við drógumst gegn annaðhvort Stoke eða Newcastle í næstu umferð en fengum heimaleikinn sem að skiptir miklu máli í þessari keppni.

Óli Stefán....sem að bíður þess í ofvæni að fara í pottinn eftir æfingu í kvöld 

 


Botn 10 listinn

Hér er svo botninn

 

10.  Klikkaði á sirkusvítinu á móti Reyni Sandgerði

9.   Vann ekki stigaleikinn sem ég byrjaði með á æfingum Grindavíkurliðsins síðasta vetur. Endaði í fjórða sæti

8.  Fór ekki á leik í enska boltanum í ferð minni til London í nóvember. Arsenal-Man Utd var m.a þessa helgi.

7.  Skoraði ekkert mark síðasta sumar en það er að ég held í fyrsta skipti á ferlinum sem að það gerist.

6.  Tók ekki fjórða stigs þjálfaranámskeið KSÍ en ferðin til Tenerife var á sama tíma.

5.  Tap á móti Þrótti Reykjavík í bikarnum en ég ætlaði mér að komast á Laugardagsvöllinn þetta árið

4.  Að hafa ekki náð að keyra í gegn góðum stuðningsmanna klúbb í Grindavík eins og til stóð

3.  Að hafa farið í coopertestið og ekki náð lámarkinu (12 mín úr lífinu sem ég fæ aldrei aftur)

2.  Að hafa ekki sett á mig tattoo sem ég ætlaði að setja á mig allt síðasta ár

1.  Að hafa tapað síðasta eldri yngri leiknum á árinu en það er í fyrsta skipti sem það gerist síðan að ég fór í eldri síðla sumars 1998

 

Óli Stefán....sem að fagnar ógurlega þegar að allt jólaskrautið er komið ofan í kassa 


Topp 10 listinn

Ég hef tekið saman topp 10 lista yfir það hvað maður gerði gott á árinu 2007

 

10. Ég söðlaði um í knattspyrnuskóm en ég hef alltaf spilað í Adidas. Þetta ár ákvað ég að prufa Nike og sé ekki eftir því

9.  Keypti nýjan bíl í fyrsta skipti á ferlinum og fyrir valinu varð Mazda 6 með lituðum rúðum, spoiler og álfelgum. Glæsileg kerra

8.  Fór í frí eftir tímabilið til Tenerife með Grindavíkurliðinu.

7.  Tók víti á móti Reyni Sandgerði í næst síðustu umferð og stóð við loforðið og tók svokallað sirkusvíti.

6.  Fór á gítarnámskeið Ólafs Gauks þar sem farið var yfir þvergrip í 11 vikur.

5.  Tók fram golfkylfurnar að nýju og spilaði tvisvar golf erlendis á árinu.

4.  Kláraði þriðja stigs þjálfaranámskeið KSÍ

3.  Settist á skólabekk og hóf nám í sjúkraliðanum 

2.  Ákvað að breyta til og fara í lið á höfuðborgasvæðinu. Fjölnir varð fyrir valinu og bíð ég nú spenntur eftir fyrsta leik klúbbsins í efsti deild

1.  Tók á móti bikar fyrir Grindavík fyrir sigur í fyrstu 12 liða deild á Íslandi 

 

 

Óli Stefán.....sem ætlar að henda inn botn 10 fyrir árið 2007 fljótlega 

 


Allt í gangi

Mikið svakalega var ég ánægður með mína menn í körfunni í gær. Að vinna Keflavík með yfir 20 stiga mun er nokkuð sem að ekki gerist á hverjum degi í körfubolta. Þetta er enn ein staðfestingin á því að ef að menn vinna saman sem lið þá er allt hægt í hópíþróttum, það er ekkert I í team eins og kaninn segir svo skemmtilega. Næst er það stórleikur við KR í DHL höllinni og er undirritaður að spá í að láta sjá sig þar því að leikir þessara liða hafa síðustu misseri verið frábærir og góð auglýsing fyrir körfuna á Íslandi.

Eftir þetta líka fína jólafrí er törn framundan hjá manni. Í kvöld starta ég þriggja daga næturvinnutörn og á mánudag byrjar boltinn aftur. Mér skilst að Ási pein ætli sko ekkert að taka neinum vettlingatökum á okkur og við förum inní púlmánuð núna. Skólinn byrjar síðan eftir helgi þannig að það er nóg um að vera.

Óli Stefán.....sem ætlar að hoppa í æfingagallann og skella sér í ræktina í svona klukkutíma og taka svo pottinn í hálftíma takk fyrir túkall 

 


Árið 2008 gengið í garð

Jæja þá er enn eitt árið gengið í garð og maður bíður bara fullur eftirvæntingar eftir ævintýrum morgundagsins. Ég er búinn að setja mér ákveðið markmið á árinu sem er að byrja og er ég alveg ákveðinn í að standast það. 

Enski boltinn hefur aldrei verið skemmtilegri enda eru mínir menn heldur betur að standa sig. Ég á bara ekki til orð yfir stjórann okkar því að enn og aftur er karlinn að sýna undraverða hæfileika að spotta leikmenn sem enginn virðist þekkja en nýjasta dæmið er Eduardo De Silva. Ég held bara að það sé ekki til betri slúttari en þessi strákur. Allavega gæti ég ekki verið sáttari með þetta Arsenal lið.

Nú í janúar byrjar síðan Reykjavíkurmótið hjá okkur Fjölnismönnum og hlakkar mig bara nokkuð til. Svona mót styttir veturinn mikið og svo eru æfingaferðirnar fyrr en áður því páskarnir eru það snemma í ár. Við Fjölnismenn ætlum að fjárafla af krafti og byrjum við snemma í janúar.

Veðrið hefur verið ansi dularfullt síðasta mánuð þar sem hver lægðin hefur ráðist á okkur ofan á aðra. Ég held bara að það sé eitthvað að breytast og nú verða veturnir svona og sumrin eins og það var í sumar. Maður þarf ekki að líta lengur til baka en þegar ég var svona 10 ára gamall en þá var alltaf allt á kafi í snjó hér yfir veturinn en núna er það hending ef að snjórinn nær yfir ökkla.

Óli Stefán......sem að var að kaupa myndina A few good man og varð ekki fyrir vonbrigðum með þá ræmu 

 


« Fyrri síða

Höfundur

Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Ég er 32 ára piltur úr Grindavík. Í dag bý ég hins vegar í Grafarvogi og spila með Fjölni í Fótbolta. Ég hef síðasta árið verið yfirblolggari hjá Grindavík en þar sem ég er ekki lengur að spila með þeim verð ég að fá mitt eigið blogg, þetta bara orðið að fíkn, ég bara get ekki hætt.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband