Færsluflokkur: Bloggar
12.3.2008 | 10:50
Mikið að gera
Það hefur eiginlega verið óvenjumikið að gera hjá karlinum síðustu vikur. Stundum getur verið erfitt að púsla saman námi vinnu og boltanum og ekkert óeðlilegt að það gangi ekki upp öllum stundum. Þessar síðustu vikur er það skólinn sem að hefur verið látinn sitja á hakanum og er það að koma í bakið á mér núna þar sem að fjöldinn allur af prófum og ritgerðum bíða mín.
Á æfingu í gær rann það upp fyrir mér núna á gamalsaldri að ég hef valið vitlausa stöðu á vellinum þegar að ég var að byrja sem ungur pjakkur. Þannig er mál með vexti að ég hef verið hálf slappur síðustu daga og í gær vantaði markmann á æfingu. Þarna sá ég mér leik á borði því að eins og alheimur veit þá er markmannsstaðan ekkert sú erfiðasta þ.e maður þarf ekki að hlaupa mikið. Ég fór í rammann og það er engum blöðum um það að flétta að þarna fann ég mig. Á köflum í leiknum varði ég þannig að meira að segja Gunnar Valur sá sig fært um að henda hrósi á mig og það gerist víst ekki á hverjum degi á þeim bænum. Mitt lið tapaði með einu marki og er það eingöngu ótrúlega slöpp nýting á færum sem að varð okkur að falli. Ég held nú samt að þetta hafi verið minn svanasöngur á milli stanganna og skora ég Gunna Val að bjóða sig fram í markið næst þegar að okkur vantar markmann.
Næstu helgi hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu því að það er fyrsta helgarfríið sem að við fáum í tvo mánuði. Nefndin er á fullu að skipuleggja dagskrá á laugardaginn þannig að búast má við miklu fjöri. Nú er um að gera að nota þessa helgi því að næsta helgarfrí verður ekki fyrr en 18.okt.
Óli Banks...... sem að óskar Óla Palla og frú til hamingju með litlu prinsessuna sem að kom í heiminn á sunnudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.3.2008 | 19:26
Hvers á maður að gjalda??
Ásmundur þjálfari boðaði okkur á æfingu einum og hálfum klukkutíma fyrr í dag vegna video fundar. Þar fékk ágætur leikur Fjölnis og KRinga sem fór fram síðustu helgi að fljóta og farið var yfir það sem betur mátti fara og einnig var nú stoppað þegar að menn gerðu vel. T.d var fyrsta mark okkar endursýnt fjórum sinnum og í fjórða skiptið var markið sýnt eins hægt og mögulegt var. Ef að KR komst nálægt okkar teig þá var stoppað og farið yfir það hvað ákveðinn varnarmaður sem að var númer 17var að hugsa í það og það skiptið og þegar að sending sem að þessi leikmaður ætlaði að koma yfir á Magnús Már klikkaði var stoppað og farið yfir það fjórum sinnum hvað maður var nú að spá. Allt þetta stóð maður af sér því að ég vissi nú sem var að ég átti eftir að setja hann í seinni hálfleik þannig að þá myndu mistökin fyrr í leiknum fall í skuggann á því. Nei haldið þið að Ásmundur hafi ekki bara tekið sig til og spólað yfir það mark!!! Ég sem betur fer hef, eins og Alfreð Jóhannsson sagði svo skemmtilega, langt bak og þoli því svona einelti. Meira að segja undir lok fundarins þegar að maður var að gráti kominn tók Kristó spes sig til og skaut mig í kaf með óþarfa kommenti. Þarna sá hann færi á að sparka í liggjandi mann og höggið langt fyrir neðan beltisstað.
Kristó á æfingu í síðustu viku
Óli Stefán..... sem að væri til í að vita hvaða sálfræðingur er að vinna með Tomma Leifs því að hann á langt í land blessaður
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2008 | 19:14
Verðandi meistarar??
Mikið svakalega er gaman að vera Arsenalmaður þegar að þeir spila svona eins og þeir gerðu á móti AC Milan í gær. Hinir mestu knattspyrnu spekingar voru búnir að segja mér að það væri nánast formsatriði fyrir AC að spila þennan leik því að þeir töpuðu bara ekkert á San Siro. Það var nú öðru nær og maður í raun bara svekktur að vinna þennan leik ekki með 4-5 mörkum. Leikurinn í gær var svolítið sérstakur því að það er hægt að segja að þarna hafi framtíðin verðið að spila á móti fortíðinni því að það verður að segjast eins og er að það er alveg að detta tími á nokkra öldunga í AC Milan.
Nú eru nokkrir leikir eftir í ensku deildinni og eigum við meðal annars eftir að spila við United og Chelsea úti og Liverpool heima. Ef að pjakkarnir sína að þeim langi að vinna ensku deildina jafn mikið og evróputitilinn þá held ég að þeim séu allir vegir færir.
Óli Stefán.....sem að er að spá í að láta það bara vera að fara á skíði um páskana eftir að hafa séð fótbrotið hjá skíðastráknum í Noregi um síðustu helgi en ekki var hægt að bjarga fætinum og hann tekinn fyrir ofan ökkla.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.3.2008 | 23:57
Reynsluleysi
Annar leikur okkar í Lengjubikarnum var við KR núna í kvöld. Ég held að hver einasti kjaftur hafi nú gert sér grein fyrir því að þeir myndu koma brjálaðir eftir leik okkar við þá í Reykjavíkurmótinu nú fyrir skömmu. Mér fannst við gefa aðeins eftir fljótlega í leiknum og KRingar stjórnuðu leiknum til að byrja með en þegar að líða tók á hálfleikinn var þetta nokkurnvegin komið, plús það að verða einum fleiri. Við förum með 1-0 inn í hálfleik og 11 leikmenn á móti 10. Í þannig stöðu þarf að halda aga á liðinu og skipulagið verður að halda. Til að gera langa sögu stutta töpum við seinni hálfleik 3-1 og lokatölur því 3-2.
Það hafa sjálfsagt flestir okkar manna skoðun á því hvað fór úrskeiðis hjá okkur í dag með unninn leik í höndunum. Ég er á því að ákveðið reynsluleysi hafi orðið okkur að falli og talning í varnarleik okkar því klikkað. Við erum með þannig lið að við getum refsað öllum liðum á landinu en til þess að vinna þurfum við meiri aga og skipulag á varnarleik liðsins frá fremsta manni til þess aftasta.
Ég var svona að lokum að spá í hvort að við markahæstu mennirnir í liðinu ættum ekki að hittast og gera eitthvað sniðugt. Væri gaman að fara með golfsettið uppí bása og taka nokkur högg til að liðka sveifluna fyrir Portúgalsferðina þar sem við gætum hugsanlega fengið frídag til að taka golfhring á meðan þeir sem hafa ekkert verið að skora taka skotæfingu. Hvað segið þið um það? Óli Palli og þið sem eigið eftir að komast á blað, ekki gefast upp því þetta hlýtur að fara að koma hjá ykkur líka
Óli Stefán.....sem að verður með Dabba Rúnn í herbergi í æfingaferðinni. Ásmundur er víst hæst ánægður með að fá svona ábyrgan mann til að hafa hemil á Skagfirðingnum knáa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.2.2008 | 18:17
Hvernig kemur maður sínu liði í form???
Í gegnum tíðina hafa hinir ýmsu þjálfarar haft sína aðferð til að koma mönnum í stand á undirbúningstímabilinu. Útihlaup og lyftingar eru eitthvað sem að allir knattspyrnumenn kannast við og allir þjálfarar nota, mismikið samt. Svo er nokkuð alltaf í gangi sem að kýs að kalla tískuþjálfunaraðferð. Þá er mönnum hópað saman og skellt í hópþjálfun sem er í tísku hverju sinni. Ég ætla að eins að fara yfir það sem hefur verið í gagni síðan að ég byrjaði
Erobic er eitthvað sem var rosalega vinsælt á árunum 1992-1999. Þarna hópast liðið saman í lítinn sal sem er fullur af speglum allt í kring og ofvirk kona að láta menn taka hin ýmsu spor í takt við danstónlist. Knattspyrnumenn eiga það sameiginlegt flestir hverjir að vera stirðari en ég veit ekki hvað og því alltaf fyndið að sjá tuttugu manna hóp reyna að dansa á fullu í takt við þessa ofvirku blómarós sem að var nú vanari að fá hóp eldri kvenna í tíma hjá sér sem ætluðu að losa sig við aukakílóin á einu námskeiði. Mér hundleiddist þetta fyrir utan það að hlægja af þeim taktlausustu reyna sitt besta.
Bodypumping var vinsælt þegar að Bjarni Jó var með okkur 2002-2003. Þá þurftum við að keyra í keflavík í tíma hjá enn einni ofvirkri fegurðardísinni. Bodypumping er má segja þróaðri útgáfa af Erobic. Þarna vorum við komnir með lóð í fangið og dönsuðum með þau í takt við sömu tónlistina og áður. Inn í lóðardansinn fengum við að boxa aðeins út í loftið og þótti það afar skemmtilegt í svona 3 mínútur. Aftur hundleiddist mér og var ég yfirleitt farinn að telja niður um leið og tíminn byrjaði.
Spinning er það allra leiðinlegasta. Sigurður Jónsson var hrifinn af þessu. Þarna er hópnum komið fyrir á hjóli í litla salnum með speglunum. Þarna var búið að kippa ofvirku fegurðardísinni út fyrir rauðhærða körfuboltahetju en Helgi Jónas Guðfinnsson var kennari í þessu. Markmið þessa tíma er að svitna eins mikið og mögulegt er í 45 mín í takt við búmm búmm tónlistina. Ég var alltaf að missa taktinn í þessu og munaði ekki miklu að maður hreinlega stórslasaðist á þessu. Spinning fær 2 af 10 mögulegum í mínum kladda.
Bootcamp er það sem er inn í dag. Ásmundur féll fyrir þessu og er að láta strákana sína glíma við þrautir sem að navy seals ganga í gegnum. Aftur er komið að ofvirku sætu stelpunni kenna okkur og öskrar hún á menn sem að standa sig ekki. Nú erum við að skilja menn frá aumingjum. Bootcamp er að mínu mati skemmtilegast af öllum tískuæfingunum. Æfingaaðstaðan er góð og fjölbreytnin mikil. Tíminn sem er um 60 mín er fljótur að líða og menn taka vel á því.
Loksins er maður búinn að finna tískuþrekæfingu sem að manni finnst skemmtileg. Það tók ekki nema 16 undirbúningstímabil til að finna þá réttu og spurning hvort að hún skili manni ekki í ögn betra form en áður.
Óli Stefán......sem að er að fara í bootcamp núna kl 19.00
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2008 | 14:18
Heimaleikir í sumar
Mikið hefur verið rætt um innan hópsins hvar við komum til með að spila næsta sumar. Þrír staðir hafa verið nefndir í þeirri umræðu en það er Laugardagsvöllur, Fjölnisvöllur og svo Egilshöllin. Fjölnisvöllurinn er ekki klár eins og staðan er í dag en á borðinu eru samningar um þetta líka mannvirkið en það tekur sjálfsagt einhver 2-3 ár að verða klárt. Á meðan á að útbúa stæði með sætum í brekkunni á móti íþróttahúsinu. Ekki veit ég nákvæmlega hvað úr verður en mikið svakalega þætti manni súrt ef að það yrði ekki nóg til að geta spilað heimaleikina hér á Fjölnisvellinum.
Ég gæti alveg lifað af með að spila heimaleikina í sumar á Laugardagsvellinum en ég held að það myndi þíða endir á mínum ferli ef að ákveðið yrði að fara með heimaleiki um hásumar inn í Egilshöll. Það er bara ekki það sama að spila á grasi eða á gervigrasi eins og staðan er í dag og sérstaklega ekki eins og það er í Egilshöllinni en það gervigras er úrelt.
Í fjölda ára hafa vellir í efstu deild verið á undanþágu eins og t.d í Árbænum. Hlíðarendi er fyrst núna að verða boðlegur og meira að segja Keflavík er ekki með boðlega aðstöðu fyrir áhorfendur. Uppí á Akranesi er þessi líka fína stúka sem að þeir gerðu fyrir margt löngu síðan en það er nú bara þannig að áhorfendur eru í meirihluta í brekkunum á móti stúkunni og manni sýnist bara fara vel um fólkið þar.
Mér finnst alveg að KSI ætti að gefa félögum, sér í lagi ungum eins og Fjölni, smá tíma til að koma upp aðstöðu og hjálpa til við að finna lausn þó að hún standist ekki alveg æðstu kröfur í bili.
Óli Stefán.....sem er að hata þennan helvítis snjó alla tíð
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2008 | 09:36
Fotbolti.net
Já það er ekki hægt að segja annað en að þessir strákar á þessum vinsæla knattspyrnumiðli séu eintómir snillingar. Þeir hafa löngum verið ásamt gras.is fyrstir með fréttirnar og í dag var sko engin breyting á. Þeir gerðu í dag frétt um töluna 7 og kom þar fram ástríða mín fyrir tölunni sem var svosem ekkert leyndarmál. Það sem fékk mig til að skella uppúr í þessari frétt var það að þeir vissu á undan okkur Guðrúnu hvenær við giftum okkur en samkvæmt þessari frétt giftum við okkur 7.jan. Það getur vel verið að það verði stóri dagurinn í náinni framtíð en eins og staðan er í dag er þessi dagsetning einungis tengd fyrsta deitinu okkar.
Ég var svona að spá eftir lestur minn á þessari frétt hvort að maður ætti nú aðeins að fara að slaka á staðreyndum mínum um 7-una áður en ég enda eins og Jim Carrey í myndinni um töluna 23
Óli Stefán.....sem að er ekkert að hoppa af gleði með þessa mynd sem þeir fotbolti.net menn nota í fréttinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2008 | 17:44
Óskarinn
Mikið svakalega var ég sáttur við valið á bestu myndinni á Óskarnum í ár. Myndin No country for old man vann og án þess að hafa séð neina af þeim myndum sem tilnefndar voru ásamt þessari þá held ég að hún hafi verið vel af þessu komin. Þetta er ein af þeim myndum sem skilja svo mikið eftir og maður er að hugsa um hana löngu eftir að sýningu er lokið.
Mér skilst að besti leikari í aðalhlutverki hafi verið vel að því kominn og nánast engin keppni um þá styttu en það er nánast þannig með Daniel Day Lewis að sama hvað karlinn gerir það verður að gulli. Bara það að hafa séð trailerinn er nóg til að sannfæra mann um að þetta hafi verið rétt val.
Ég var að lesa um óskarinn í einhverju blaðinu og það sem náði athygli minni óskiptri var að einn snillingurinn var tilnefndur í tuttugasta skiptið í ár fyrir að ég held klippingu en í tuttugasta skiptið fór hann tómhentur heim. Hversu svekkjandi hlýtur það að vera????
Óli Stefán......sem að hatar American next top model og skilur ekki af hverju þessi vitleysa endar ekki. Þetta rusl er alltaf í sjónvarpinu
Bloggar | Breytt 27.2.2008 kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2008 | 20:27
Fullt hús
Maður náði að ég held a sigra í fyrsta skipti í Boganum á Akureyri í dag þegar að við Fjölnismenn unnum Þór 3-5. Þetta var frekar kaflaskiptur leikur en ef að maður á að vera alveg hreinskilinn þá fannst mér við nú alveg eiga þetta skilið því að færin létu sko ekki á sér standa. Ómar málari komst fjórum sinnum einn á móti markmanni en klikkaði í öll skiptin. Geiri var líka aðeins of gjafmildur því hann gaf glæsilega sendingu innfyrir á Þórsara sem að þakkaði pent og kláraði færið. Reyndar bætti hann það vel upp með því að skora og leggja svo upp fyrir samherja líka. Ég nenni ekki að ræða dómgæsluna sem er alveg kafli út af fyrir sig úr því að við unnum leikinn. Góður sigur okkar fyrir norðan og því með fullt hús stiga eftir einn leik í Lengjubikarnum í ár.
Óli Stefán.....sem fann ekki neitt fyrir flughræðslu í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 17:11
Maður er hreinlega ekki að sjá Eduardo spila aftur
Þetta er ógeðslegasta fótbrot sem maður hefur séð. Ég er ekki að sjá Eduardo spila aftur en vá hvað maður vonar að strákurinn jafni sig. Ég á nú ekki von á því að Taylor hafi nú ætlað sér að fara svona með Eduardo en tæklingin er vissulega glæfraleg og verðskuldaði alveg rautt spjald. Meistari Wenger tekur kannski full djúpt í árina en hann hefur sjálfsagt verið tekinn í viðtal strax eftir hrikalega svekkjandi úrslit þar sem við fengum mark á okkur undir loki.
Óli Stefán......sem að er hrikalega óánægður með spilamennskuna í dag hjá Arsenal
Wenger: Þessi maður á ekki að spila fótbolta framar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar